145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

hæfnispróf í framhaldsskólum.

155. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka upp þráðinn þar sem hæstv. ráðherra sleppti honum hér í samtali við hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur. Ég verð að segja það, forseti, að ég næ ekki utan um röksemdafærslu hæstv. ráðherra þegar hann rekur það að mesta brottfallið hlutfallslega sé eftir tvítugt og grípur til þess ráðs að gera þeim sem eru eldri en tvítugir erfiðara um vik að komast inn í skólann. Ég velti því fyrir mér hvort það standi til hjá hæstv. ráðherra að bæta statistíkina með því að gera skólana óaðgengilegri en þeir hafa verið áður.

Þá komum við að þeim spurningum sem ég er með til hæstv. ráðherra og snúast um hæfnispróf í framhaldsskólum. Það hefur komið fram í fréttum að ný Menntamálastofnun, sem hefur nú farið frekar skrykkjótt af stað, hefur fengið það verkefni frá hæstv. ráðherra að hefja undirbúning að gerð einhvers konar hæfnisprófa inn í framhaldsskólann. Vegna þeirrar umræðu sem hefur verið í samfélaginu þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra, í fyrsta lagi:

Hvaða greining liggur til grundvallar þeirri ákvörðun að hefja undirbúning að gerð hæfnisprófa inn í framhaldsskólana? Hefur verið haft eitthvert samráð við sveitarstjórnarstigið til að byrja með, það stjórnsýslustig sem hefur með grunnskólann að gera?

Í öðru lagi: Hvert var samráðið við Skólameistarafélag Íslands og Félag framhaldsskólakennara um þessa ákvörðun?

Í þriðja lagi. Hver eru viðbrögð ráðherra við þeirri staðreynd að formaður Skólameistarafélags Íslands hefur lýst áhyggjum sínum af þeim viðvarandi óstöðugleika sem hæstv. ráðherra hefur boðið framhaldsskólunum á Íslandi upp á það sem af er kjörtímabilinu?

Hæstv. ráðherra hefur nýverið stytt einhliða framhaldsskólann um eitt ár niður í þrjú ár með tilskipun að ofan, lokað framhaldsskólanum fyrir 25 ára og eldri með furðulegum rökum eins og hér var gert áðan, og síðan þegar skólarnir eru að aðlagast þessum veruleika, þ.e. með 25 ára og eldri og styttingunni, kemur nýjasta fréttin frá hæstv. menntamálaráðherra, sem virðist ekki geta látið skólastigið í friði með það að þróast eftir sínum lögmálum og með sínum sérfræðingum, sem tekur upp á því að taka upp áform um beitingu hæfnisprófa sem er algjörlega nýtt í umræðunni.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Þýðir þetta eitthvað annað en samræmt inntökupróf fyrir framhaldsskólastigið og að þar með sé enn og aftur verið að loka (Forseti hringir.) framhaldsskólastiginu fyrir ungu fólki í landinu?