145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

hæfnispróf í framhaldsskólum.

155. mál
[16:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst hún mjög nauðsynleg. Mér finnst samt aðeins vanta í þetta. Hæstv. ráðherra segir að ástæða sé til að grípa til aðgerða í menntamálum þar sem árangur nemenda og barna sé ekki nægur. Ég tek undir það að við þurfum vissulega að skoða það og bregðast við, hvernig við getum bætt úr því. Vandamálið er að hæstv. ráðherra hefur ekki tekið þessi mál til umræðu hér á Alþingi, í fagnefndum og með fagfólki og skólastjórnendum og kennurum í landinu. Það vantar að móta þessa stefnu með þeim sem vinna með menntun í landinu.

Við erum nýkomin úr kjördæmaviku og ég heyrði af miklum áhyggjum sveitarstjórnarmanna af framhaldsskólastiginu í landinu, af því hvaða áhrif niðurskurðurinn varðandi 25 ára regluna hefði, en framhaldsskólarnir byggja starf sitt mikið á fjarnámi. Þetta kemur niður á því vegna þess að í fjarnám í bóknámi eru 25 ára nemendur og eldri sem ekki er hægt að taka inn í skólana. Það hefur keðjuverkandi áhrif og er ekki til góðs fyrir menntun úti á landi.