145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

hæfnispróf í framhaldsskólum.

155. mál
[16:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hvað varðar gamaldags skilning þá vil ég nú segja að það er ekkert nýtískulegt eða nútímalegt að geta ekki lesið sér til gagns. Það er heldur ekkert nútímalegt við það að vera sú þjóð innan OECD sem hefur hvað lakasta framgang í námi á framhaldsskólastigi. Og það er alls ekki nútímalegt eða nýtískulegt að vera sú þjóð sem er með hæsta meðalaldur allra þegar kemur að BA-/BS-gráðum. Það þýðir það að við erum sem samfélag styst á vinnumarkaði með menntun. Það, virðulegi forseti, er ekki nútímalegt og það er ekki nýtískulegt.

Hvað varðar ummæli sem hv. þm. Árni Páll Árnason lét falla, varðandi mismunun gagnvart nemendum inn í framhaldsskóla, þá tel ég að það sé ekki mismunun gagnvart nemendum þegar framhaldsskóli stendur frammi fyrir þeim vanda að fleiri sækja þar um nám en pláss er fyrir. Þá þarf að velja úr, í því er ekki fólgin mismunun, virðulegi forseti.

Hvað varðar spurningu frá hv. þm. Árna Páli Árnasyni um að samræmd próf dugi ekki lengur; hann spyr hvers vegna verið sé að þessu öllu saman. Málið er reyndar að það er búið að taka það úr sambandi, var gert hér fyrir mörgum árum, framhaldsskólum er ekki heimilt að nýta sér samræmd próf, sem þó eru tekin, til þess að skoða einkunnir nemenda til að taka ákvarðanir um það hvort þeir vilji taka þá inn í sinn skóla eða ekki á grundvelli slíks. Ég vil bara nefna þetta þannig að það fari nú ekki á milli mála hvað hér er á ferðinni.

Hvað varðar umræðuna um þessi mál hér; ég hef heyrt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar úr þessum ræðustól að ekki hafi farið fram nein umræða. Þá verða menn að hafa í huga að árið 2006 hófst undirbúningur undir lagasetningu sem síðan varð hér að veruleika árið 2008, meðal annars hvað varðar framhaldsskólann. Það var búið að setja ákveðinn ramma í lögum og það er verið að vinna eftir því. Það er Alþingi sem setur lögin, síðan er það framkvæmdarvaldsins að vinna innan þeirra.

Virðulegi forseti. Hvað varðar stefnumótun af minni hálfu þá setti ég hana fram í hvítbók sumarið 2014, ferðaðist um allt landið, hélt yfir 33 eða 34 opna fundi út um allt land þar sem áherslumál mín, þessi og önnur, voru sett fram. Á þá fundi komu um 1.500 manns, að lágmarki, held ég, og 500–600 kennarar, þar sem ég átti beint samtal.

Nýverið hef ég lokið ferð um landið þar sem ég hef haft fundi, haldið ræður og hlustað á ræður, með fólki, (Forseti hringir.) sveitarstjórnarfólki og kennurum, vegna læsisátaksins. Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að halda því fram að það sé leitun að því að jafn mikið samráð eða (Forseti hringir.) jafn mikið samtal hafi átt sér stað um breytingar í menntamálum og hefur verið hér á undanförnum árum. (Gripið fram í.)