145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Eins og við ræddum hér í vor eða sumar um þessa nauðasamninga og stöðugleikaskatt og stöðugleikaframlag þá er þetta náttúrlega eitt af stærstu málunum sem við fáumst við á þessu kjörtímabili og kannski í lengri tíma, þannig að það er ekki furða þótt maður reyni a.m.k. að velta því vel fyrir sér.

Það vekur athygli mína að í greinargerðinni með frumvarpinu á bls. 3 segir, með leyfi forseta: „Samkvæmt fulltrúum slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja hafa þær upplýsingar borist þeim að stærstu félög á sviði utanumhalds og uppgjörs vegna útgáfu skuldabréfa …“, þ.e. að félög í Evrópu sem sjá um skuldabréf muni ekki taka að sér það sem nauðsynlegt er til að hægt sé að ganga frá þessum skatti og þess vegna er ákveðið að leggja hann niður. Gott og vel. Það má vel vera að það sé rétt. En er það bara þannig að við gerð þessa frumvarps komi fulltrúar slitabúanna, sem eiga auðsjáanlega mjög mikilla hagsmuna að gæta í þessu öllu saman, og tilkynni ráðherra að þetta sé svona, þau muni ekki taka þetta að sér, og þá sé hlaupið til og frumvarp samið um það?

Í öðru lagi langar mig að spyrja: Hversu miklu máli skiptir þetta? Hvaða eigendur eru þetta? Það kemur síðan fram í skýringum í greinargerð að mest af þessu falli niður vegna þess að um sé að ræða kröfuhafa í ríkjum sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamninga við. Hverjir eru það þá sem mundu komast í þá óþægilegu aðstöðu sem stóru öflugu fyrirtækin í Evrópu vilja ekki lenda í og taka að sér að reikna út hvað þeir eiga að borga?