145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er í raun og veru svolítið sérstakt við þetta mál að allt sem snertir uppgjör föllnu fjármálafyrirtækjanna og leiðir sem stjórnvöld hafa verið að þróa á undanförnum árum til þess að ljúka slitum þeirra gerist að vissu leyti í lokuðum heimi, eins og stöðugleikaskatturinn er til vitnis um. Honum er sérstaklega beint að þessum vanda sem lýsir sér í því að fjármálafyrirtækin hafa ekki lokið slitum þrátt fyrir að svona langt sé um liðið og það hefur þurft að höggva á hnútinn. Þetta er allt saman liður í aðgerðum til þess að losa þjóðina á endanum undan fjármagnshöftunum. Það má segja að sú breyting sem lögð er til um þetta efni, að almenna skattákvæðið gildi ekki, verði að skoðast í samhengi við þá heildaraðgerð sem er hér undir, sem er sú að við erum að eyða greiðslujafnaðaráhrifum af uppgjöri slitabúanna. Ein leiðin til þess að það geti gerst, með stöðugleikaframlagi, er sú að það komi til útgáfu bréfa af þessu tagi. Það leiðir síðan til þess að menn eru með væntingar um að geta skráð viðkomandi bréf og þegar þeir þræða þá götu lengra rekast þeir á að það geta verið tæknilegar hindranir með þá útfærslu ef afdráttarskattur er í gildi á Íslandi.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni að þetta er kannski svolítið óheppilegt orðalag í greinargerðinni og ég tek það bara á mig að hafa lagt það þannig hér fram. En það er engu að síður svo að við leggjum hér til breytingu sem er hugsuð til þess að greiða fyrir því að búin geti lokið slitum með (Forseti hringir.) stöðugleikaframlagi. Þarna er í raun og veru eingöngu um að ræða tæknilega hindrun. Það er ekki verið að leggja til almenna lagabreytingu heldur að sérsníða lausn að því (Forseti hringir.) meginmarkmiði okkar sem er að vinna að afnámi haftanna.