145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:12]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrsta athugasemdin sem mig langar að gera er að það kemur að því er virðist hvergi fram í frumvarpinu hversu mikil áhrif undanþágan sem talað er um í 1. gr. frumvarpsins muni hafa. Er búið að finna út hversu miklum tekjum ríkissjóður verður af? Það er sagt hér að breytingin muni ekki hafa umtalsverð áhrif þar sem ekki sé gert ráð fyrir þessu í ríkisreikningi, eða hvað sem þetta nú heitir. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Um hversu háa upphæð er að ræða sem mun falla þarna út fyrir? Hefur verið gerð einhver úttekt á því? Hvernig standa málin þar? Það er ekki hægt að ræða þetta mál, alla vega ekki 1. gr., án þess að við fáum að vita hverjar upphæðirnar eru. Forsendurnar liggja þar.