145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég lét þess getið í framsöguræðu minni að verði frumvarpið óbreytt að lögum eru áhrif þess á ríkissjóð óveruleg. Þetta frumvarp, verði það óbreytt að lögum, mun heldur ekki raska neinu í langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Við getum auðvitað nálgast þessi haftamál, sem eru hið undirliggjandi mál hér, með ýmsum hætti. Ein leið er að nálgast þetta sem tekjuöflunaraðgerðir og spyrja: Hversu miklu getum við rakað saman í ríkissjóð á grundvelli haftaafnámsáætlunar og tengdra mála?

Ég hef aldrei nálgast málið þannig. Ég hef litið þannig á að við værum að leysa flókið viðfangsefni sem er fjármagnshöftin. Það hefur tekið okkur mörg ár. Við höfum lagt fram tillögur sem eru fyrst og fremst ætlaðar að losa okkur og þjóðina undan höftunum. Til þess höfum við kynnt sérstakan skatt. Við höfum boðið upp á stöðugleikaskilyrði. Þar er undirliggjandi að við erum að hlutleysa uppgjör slitabúanna hvað varðar greiðslujafnaðaráhrif, þ.e. við erum að tryggja að búin geti gengið frá sínum málum og greitt út til kröfuhafa án þess að það hafi veruleg áhrif á gengi íslensku krónunnar. Við göngum reyndar mjög langt í því. Við ætlum ekki að sætta okkur við nein augljós áhrif á krónuna. Við erum í raun og veru algerlega að hlutleysa öll slitabúin hvað varðar þrýsting á gengi krónunnar. Þetta mál hérna er í sjálfu sér eins og sandkorn í stóran haug af sandi þegar kemur að því að meta áhrifin af þessu öllu saman. Þetta er pínulítið mál sem varðar tæknilega framkvæmd haftaafnámsins. Jafnvel þótt ég skilji vel að menn vilji glöggva sig á því hverju þetta hefði skilað í ríkissjóð þá held ég að miklu betra sé að skoða málið í heildarsamhengi hlutanna.

Ég vil segja (Forseti hringir.) að lokum: Ég held í raun og veru sé ekki hægt að svara þessari spurningu vegna þess hversu margir óvissuþættir eru, t.d. vegna mögulegra tvísköttunarsamninga og (Forseti hringir.) með hliðsjón af því hvað hefði verið gefið út af bréfum ef menn hefðu lent í skatti og hvar þau hefðu verið skráð. Það eru of mörg „ef“ og „hefði“ (Forseti hringir.) til þess að svara því með afgerandi hætti hverju þetta hefði mögulega skilað.