145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar þennan tiltekna skatt er þetta ekki tekjuskattur heldur afdráttarskattur sem hefði þurft að koma til samkvæmt núgildandi lagaskilyrðum. Ég vil taka fram að í því samtali sem hefur átt sér stað við slitabúin hafa stjórnvöld haft eitt að leiðarljósi sem er að lágmarka áhrif af uppgjöri búanna og útgreiðslu kröfuhafa á efnahagsumhverfi á Íslandi. Til þess var þessi heildaráætlun samin um að gefa þeim tiltekinn frest til að greiða stöðugleikaframlag og undirgangast þau skilyrði sem þeim hafa verið kynnt, ellegar að lenda í stöðugleikaskattinum sem leysir þá þennan undirliggjandi greiðslujafnaðarvanda og gerir búunum kleift að gera upp við kröfuhafa sína.

Þetta tiltekna frumvarp verður ekki slitið úr samhengi við það. Þó að við höfum haft það sem markmið að horfa til þess að leysa greiðslujafnaðarvandann höfum við á sama tíma verið skýr með það að við mundum hlusta eftir því hvaða atriði það væru sem gætu gert slitabúunum auðveldar að klára nauðasamning, fá hann samþykktan og afgreiða þessi mál, vegna þess að það eru sameiginlegir hagsmunir okkar með búunum að þau mál séu komin út úr heiminum sem allra fyrst. Það má segja að þetta frumvarp séu efndir á því loforði gagnvart slitabúunum af hálfu stjórnvalda að gera það sem rúmast innan þeirra markmiða sem við höfum sett okkur, gera það sem við getum til að greiða fyrir skjótri niðurstöðu í þessu öllu saman. Það lýtur að atkvæðagreiðslunum, það lýtur að þessu með afdráttarskattinn og það lýtur að öðrum atriðum í frumvarpinu. Þetta er til að einfalda og flýta fyrir og tryggja að þessi mál geti klárast á þessu ári. Þetta afdráttarskattsmál (Forseti hringir.) er vissulega undanþága, en á móti má segja að það er kannski ekkert hefðbundið og venjulegt við stöðugleikaskattinn og uppgjör þessara slitabúa á annað borð.