145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sökum anna utan þings heyrði ég ekki fyrri part ræðu hv. þingmanns en seinni parturinn var hins vegar mjög glöggur og hún skilur bersýnilega vel eðli þessa frumvarps. En mig langar til að spyrja hv. þingmann samviskuspurningar. Hún hefur setið hér nokkur ár á þingi, hefur hún einhvern tímann séð glitta í lagasetningu sem byggist á orðrómi eða slúðri? Ég vísa til þess að það er verið að gera tillögu um það að kröfuhafar, sem fá greitt í skuldabréfum sem bera vexti, verði undanþegnir afdráttarskatti. Og af hverju er það? Jú, það er vegna þess, eins og segir á bls. 3 í greinargerðinni, að fulltrúum slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja hefur borist til eyrna að stærstu félög á sviði umsýslu skuldabréfa muni ekki taka við skuldabréfum ef sú kvöð verður á þeim að afdráttarskattur verði tekinn vegna vaxtatekna hér.

Með öðrum orðum, það er ekkert sem liggur fyrir um það skriflegt gagnvart fjármálaráðuneytinu. Hæstv. fjármálaráðherra hefur engin gögn um þetta en það hefur einhver sagt honum yfir skrifborð að fulltrúum slitabúanna hafi borist þetta til eyrna. Ég hef aldrei á minni lífsfæddri ævi séð tillögu að lagasetningu sem byggist á orðrómi. Ég spyr hv. þingmann: Hefur hún einhvern tímann séð frumvarp sem byggir á svona? Telur hún koma til greina að hún sem minn fulltrúi og Íslendinga í efnahags- og viðskiptanefnd taki þátt í því að samþykkja frumvarp sem byggist á jafn haldlitlum upplýsingum og þetta? Mun ekki hv. þingmaður gera harða kröfu um að fá að sjá einhver gögn sem liggja þarna að baki?

Ég skora á hv. þingmann, sem er nú rísandi stjarna í mínum flokki, að slást í lið með mér og öðrum sem koma í veg fyrir það, burt séð frá eðli málsins, að svona slyðrugangur í lagasetningu verði látinn viðgangast á meðan fætur okkar beggja eru um það bil þokkalega volgir í pólitísku tilliti.