145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:36]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom of seint, eins og hann segir sjálfur, hann heyrði hvorki andsvar mitt né byrjun á ræðu minni þar sem ég fór einmitt yfir þetta. Ég orðaði það svo — ég er nú ekki jafn mælsk og hv. þingmaður þannig að ég var kannski eitthvað aðeins á lægri nótunum. Ég undraðist þetta mjög, að þarna væri bara farið að orði þeirra sem hafa mesta hagsmuni af því verði frumvarpið samþykkt.

Hæstv. ráðherra sagðist eiginlega bera ábyrgð á orðalaginu. Hann hefði kannski, ég er alveg sammála flokksbróður mínum, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, átt að vanda sig betur þegar hann skrifaði þetta niður. Auðvitað þurfum við að sjá um hvað þetta var. Ég er alveg sammála því. Ég hef lýst því yfir að ég muni einmitt nota þann tíma sem við höfum í nefndinni til að fara yfir þetta. Þetta er dæmigert, fara þarf vel yfir öll mál í nefndum, en að mínu viti vekur þetta mál hjá mér mjög margar spurningar og ekki síst hvaða orð eru notuð í greinargerðinni með því vegna þess að síðan kemur fram á öðrum stað í greinargerðinni að það hafi heyrst eða ábendingar borist um eitthvað, ég veit ekki hvaðan þær ábendingar hafa borist. Auðvitað þurfum við að fá skýringu á því og skoða þetta allt alveg niður í kjölinn.