145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Grundvallarspurningin sem eftir er að svara í málinu er: Er réttlætanlegt að veita afsláttinn? Ég tek alveg undir með hæstv. fjármálaráðherra að lögin eins og þau standa munu að óbreyttu, miðað við forsendurnar sem lagt var upp með í vor, skila 682 milljörðum í ríkissjóð. Það sem eftir stendur er þetta: Hvar eru efnislegu greiningarnar á því að réttlætanlegt sé að veita slíkan afslátt frá þeim skatti sem hér um ræðir?

Það er mjög athyglisvert og skemmtilegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra tyfta hæstv. forsætisráðherra með því í reynd að segja að þetta hafi alltaf snúist um að nýta það svigrúm sem var til staðar. Það var náttúrlega það sem við í Samfylkingunni lögðum upp með fyrir síðustu kosningar og lýstum í smáatriðum svigrúminu sem væri fyrir hendi og hvernig við vildum nýta það til fulls.

Það er athyglisvert að heyra að það skuli vera nokkurn veginn það sem hæstv. fjármálaráðherra leggur hér til og talar fyrir, en hann verður samt að útskýra fyrir okkur öllum hinum af hverju eigi að hvika frá skatti sem hann telur innheimtanlegan upp á 682 milljarða og gefa erlendum kröfuhöfum afslátt um helming af þeim skatti. Til að það sé mögulegt held ég að nauðsynlegt sé að birta opinberlega og færa fyrir því ítarleg rök af hverju slíkt sé réttlætanlegt, stöðugleikaskilyrðin verða að verða skýr. Þess vegna hvet ég til þess að yfir þetta verði farið mjög vandlega í efnahags- og viðskiptanefnd og athugasemdir Indefence teknar þar mjög alvarlega, því að ef þessi ríkisstjórn ætlar að gefa erlendum kröfuhöfum 50% afslátt af sköttum, miklu meiri fjárhæðir en nokkru sinni hafa farið til skuldugra heimila í landinu, er eðlilegt að hún standi skil á því, útskýri það og rökstyðji.