145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef hæstv. ráðherra meinar það að stöðugleikaskattsleiðin sé gild og hún standist gagnvart öllum dómstólum og gagnvart öllum alþjóðlegum skuldbindingum sem við höfum og þegar haft er í huga að við höfum í lifandi samtali komist að sameiginlegri niðurstöðu með kröfuhöfum — sem þeir voru svo ánægðir með að margur blaðamaður talaði um að þeir hefðu ærst úr kæti — hvers vegna eigum við þá aftur og aftur eftir lifandi samtöl hæstv. fjármálaráðherra við kröfuhafa að breyta jafnvel þeim lögum sem við vorum að setja í fyrra? Ég sé ekki alveg lógíkina í þessu nema hæstv. ráðherra geti fært mér einhverjar sönnur á að það leiði til einhvers skaðlegs eða neikvæðs fyrir Íslendinga. Þess vegna spurði ég hann áðan hvort þetta gæti haft einhver áhrif á lánshæfismat eða eitthvað annað.

Ég segi það alveg hreinskilnislega og hæstv. ráðherra verður bara að virða það við mig, hann er ekki sekur um það, en hér er ríkisstjórn sem samanstendur af fólki sem hefur barið á stjórnarandstöðunni, a.m.k. parti hennar, fyrir að hafa viljað semja við kröfuhafa og er sjálf í samningum við kröfuhafa sem hún segir að vísu að séu ekki samningaviðræður heldur bara lifandi samtal. Ég velti fyrir mér: Hvernig snýr veröldin þá gagnvart slíkum mönnum? Og hæstv. ráðherra verður að virða það við mig að ég tek þetta hér aðeins upp sérstaklega þegar hann segir að leiðirnar báðar séu gildir.

Síðan í lokin, finnst hæstv. ráðherra það eitthvað skrýtið að Indefence og hugsanlega Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, eða ég, vilji sjá stöðugleikaskilyrðin fyrir hvert einstakt slitabú, t.d. lengingarnar? Þær skipta máli fyrir fjármálalegan stöðugleika inn í framtíðina. Af hverju er það eitthvert leyndarmál? Og svo ég kvarti aðeins, af hverju á bara að sýna það efnahags- og viðskiptanefnd? Af hverju geta ekki menn (Forseti hringir.) eins og ég sem hafa haft lifandi áhuga á þessu máli frá því að það kom fyrst fram líka átt kost á því að fá þessar upplýsingar?