145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort ég get útskýrt þetta eitthvað betur en ég hef reynt að gera hér, en þetta er svona: Við erum með heildstæða áætlun. Hún gengur út á það að ef menn uppfylla ekki stöðugleikaskilyrðin þá fá menn á sig skattinn. Það þýðir um leið að ef menn uppfylla stöðugleikaskilyrðin þá geta þeir fengið lausn, þá geta menn greitt út til kröfuhafanna vegna þess að þeir hafa greiðslujafnaðarhlutleyst slitabúin. (Gripið fram í.) Hafi menn hins vegar þá skoðun og ég heyri að hv. þingmaður er mjög nærri því að vera á þeirri skoðun, ef hann er ekki alfarið kominn á þá skoðun, að það sé langbest fyrir alla að fara bara skattaleiðina þá verða menn að hafna stöðugleikaskilyrðunum. En það er ekki hægt að segja: Stöðugleikaskilyrðin eru fín og ágæt en jafnvel þó að menn uppfylli þau þá munum við náttúrlega segja nei af því að við viljum frekar skattinn. Þetta er ekki svona. Það er ekki hægt að haga stefnu sinni í þessum málum eftir hentugleika, eftir því hvort fleiri krónur reiknast í ríkissjóð, eftir hvorri leiðinni fleiri krónur reiknast í ríkissjóð. Ef ég væri þeirrar skoðunar að best væri að leysa þetta bara með skattinum og það kæmi í sjálfu sér ekkert annað til greina þá hefði ég mælt fyrir slíku frumvarpi í vor og við hefðum aldrei rætt um stöðugleikaframlagið.

Ég hef fært fyrir því rök að stöðugleikaframlagið leysir málið, hið undirliggjandi vandamál, jafn vel og skatturinn og það er okkar meginhlutverk. Ég hef líka fært fyrir því rök að stöðugleikaframlagið styrki lagalega stoð stöðugleikaskattsins. Síðan verður það kynnt fyrir þinginu, fyrir efnahags- og viðskiptanefnd, lögum samkvæmt ef til þess kemur að slitabúin leggja fram hugmyndir um nauðasamning og stöðugleikaframlag. Þar verður enginn afsláttur veittur af þeim markmiðum sem hér eru svo ítrekað til umræðu.