145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ágætistilraun til að snúa út úr eðli þessa máls en mér finnst hún mistakast ef ég segi alveg eins og er. Þetta er ekki spurning um að við séum hér að mæla með einhverjum sérstökum ívilnunum fyrir kröfuhafa eða gera þeim mishátt undir höfðu eftir því hvar þeir skrá lögheimili sitt. Þetta mál snýst um að ljúka aðgerðum sem munu annaðhvort skila ríkinu tæplega 700 milljörðum í beinan skatt eða stöðugleikaframlagi sem mun í fyrsta lagi skila mörg hundruð milljörðum í beint framlag, mörg hundruð milljörðum í beina fjárfestingu inn í landið, lengingar á skuldbindingum sem eru þegar til staðar og í þriðja lagi endurgreiðslu af fjármögnun sem ríkið stóð fyrir við endurreisn bankakerfisins. Það er um það sem þessi mál snúast í heild sinni, sem sagt annaðhvort fáum við á endanum tækifæri til að losna við fjármagnshöftin og gríðarlega háar skattgreiðslur eða stöðugleikaframlag.

Ef menn vilja snúa þessu máli upp í að það snúist allt um einhverja afslætti þá misskilja þeir einfaldlega eitthvað heildarsamhengi hlutanna að mínu áliti.