145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég er á sömu nótum og síðasti ræðumaður þar sem við vorum í kjördæmaviku og mitt kjördæmi, Norðausturkjördæmi, er stórt eins og sum önnur. Við fórum frá Siglufirði og alla leið austur á Djúpavog og þar var líka samhljómur hjá sveitarstjórnarfólki og það var samhljómur hjá stærstu stofnunum ríkisins um það að fjárvöntunin væri mikil og að fólk hefði almennt átt von á því núna þegar betur er farið að ára í samfélaginu að þessu væri jafnara skipt.

Það var mikið talað um samgöngur eins og kom fram áðan. Þjóðvegur 1 er ekki uppbyggður eða malbikaður eða neitt slíkt alls staðar, m.a. í Berufirði.

Það er mikið talað um vonbrigði með ljósleiðaramálið, að fjármagn fylgi ekki eins og gert hafði verið ráð fyrir. Það voru líka mjög miklar áhyggjur af tekjuskiptingu sveitarfélaga sem sneri bæði að málefnum fatlaðs fólks en líka að innri uppbyggingu sem sveitarfélögin þurfa að sjá um, sem er auðvitað inni í þéttbýlinu og þau hafa kannski ekki tök á að fara í því að sveitarfélagareikningurinn er frekar niður á við, því miður, meðan ríkissjóður er upp á við. Skoðanir margra voru í þá veru að ríkissjóður ætti ekki að vera að lækka skatta meðan staðan væri svona heldur útdeila því frekar til sveitarfélaganna.

Það var talað um tollgæsluna og að óásættanlegt væri hvernig henni er fyrir komið til dæmis í Seyðisfirði, sem er í mínu kjördæmi. Síðast en ekki síst voru miklar áhyggjur í Norðausturkjördæmi af fyrirætlunum hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarssonar um sameiningu framhaldsskólanna og niðurskurð til þeirra, sumra hverra, hvernig fyrir þeim væri komið og hvernig nemendaígildi og annað væri reiknað, og rökstuðningur virtist lítill úr ráðuneytinu til handa þeim sem með völdin fara heima í héraði. Því miður er sveitarstjórnarfólk, sama hvar í flokki það er, afar vonsvikið með fjárlög 2016.


Efnisorð er vísa í ræðuna