145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Að lokinni kjördæmaviku tökum við þingmenn nú saman niðurstöður, vinnum úr þeim, vegum og metum hvernig við fylgjum málum eftir. Sú ágæta hefð hefur skapast í Norðausturkjördæmi að allir þingmenn ferðast saman, hitta fulltrúa allra sveitarstjórna í kjördæminu og forstöðumenn ýmissa stofnana. Með þessu vinnulagi getum við þingmenn komið okkur niður á mál sem við setjum í forgang og vinnum að saman því að auðvitað erum við í grunninn sammála um flest það sem til framfara getur orðið.

Mér dettur í hug hvort við þingmenn höfum gott af því að fara meira á milli kjördæma. Sem dæmi vil ég nefna að sú sem hér stendur ók tæplega 1.800 km í liðinni viku ásamt félögum sínum. Kjördæmið er víðfeðmt, nær allt frá Siglufirði til Djúpavogs. Á meðan fóru t.d. þingmenn Reykjavíkur, eðlilega, yfir mun minna svæði. Bara það að aka vegina í kjördæminu dýpkar verulega skilning á ástandi þeirra og mikilvægi þess að bæta verulega í framlög til viðhalds vega hnykkist vel inn í meðvitundina þegar þvælst er um óboðlega vegi sem eru því miður sá veruleiki sem margir Íslendingar búa við eftir áralangt aðhald. Hér má til dæmis nefna slóðann á Borgarfjörð eystri, veginn um Brekknaheiði, Bárðardalsveg, Hörgárdalsveg, fjölda marga innansveitarvegi og heimreiðar. Eftir þessa yfirreið get ég ekki annað en velt því fyrir mér, líkt og margir sveitarstjórnarmenn gera, hvort eðlilegt sé að leggja áherslu á að byggja fyrst upp vegi til staða sem ekki er búið á. Þetta þurfum við að ræða. Erum við ekki að byggja upp ferðamannaland sem við viljum búa í?

Um leið og ég þakka öllum sem tóku á móti okkur í liðinni viku vil ég lýsa því yfir að það er mikill kraftur í fólki. Mörg samfélög standa að alveg hreint ótrúlegum verkefnum sem vert er að gefa meiri gaum. Mér dettur í hug að nefna LungA-skólann á Seyðisfirði þar sem nemendur koma víða að og auðga mannlíf og menningu á litlum stað, Rúllandi snjóbolta á Djúpavogi, sem er menningarviðburður á heimsmælikvarða, metnaðarfullt starf menntastofnana, starfsemi þekkingarsetra og svo ótal margt annað sem ekki næst (Forseti hringir.) að telja hér upp. Það er klárlega kraftur í íbúum landsins og ástæða til bjartsýni.


Efnisorð er vísa í ræðuna