145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Þeir sem stunda svokallaðan verksmiðjubúskap eiga við mikinn vanda að etja um þessar mundir. Yfir greininni hvílir skuggi eftir að í ljós hafa komið alvarleg brot á lögum um dýravelferð. Það er ekki ofmælt að almenningur sé í hálfgerðu áfalli eftir að upp komst um þær aðstæður sem svín búa oft og tíðum við og voru alls ekki í lagi í mörgum tilfellum samkvæmt úttekt Matvælastofnunar.

Nú er sú staða raunhæf að neytendur muni hugsa sig tvisvar um áður en þeir kaupa umrætt kjöt. Það er alveg ljóst að verksmiðjubúskapur þar sem dýr líða þjáningar í þeim tilgangi að ná niður verði verður aldrei ásættanlegur. Svína- og kjúklingaframleiðsla er hins vegar afar mikilvæg fyrir fæðuframboð á Íslandi. Ljóst er að hjá íslenskum bændum er að finna miklu meiri hreinleika í afurðum en þekkist í innfluttu kjöti vegna þess hve lítið er notað af lyfjum hér á landi og hve strangar reglur gilda um að farga sýktu kjöti. Í þessu sambandi er talað um að á Íslandi sé notaður einn fúkkalyfjaskammtur á móti 20 í flestum samkeppnislöndum okkar. Slíkri ofursýklalyfjanotkun fylgir gríðarleg hætta á að fleiri fúkkalyf verði ónothæf og að sýklalyfjaónæmi verði stöðugt alvarlegra innan læknisfræðinnar.

Ég spái því að í kjölfar þessara tíðinda muni koma fram skýr krafa frá neytendum um að þeir vilji að það kjöt sem þeir kaupa sé vottað þannig að fram komi að það sé framleitt með hætti sem samræmist lögum um dýravelferð. Einnig er afar mikilvægt að neytendur geti á umbúðum vöru séð hvaðan kjötið kemur sem notað er í pylsur, álegg o.fl. Í fyrsta lagi: Er þetta innlent eða erlent kjöt? Í öðru lagi: Kemur kjötið frá búum sem hlotið hafa (Forseti hringir.) gæðavottun í dýravelferð?

Að lokum vil ég hvetja (Forseti hringir.) svína- og kjúklingabændur til að opna bú sín, bjóða almenningi í heimsókn og útskýra hvernig aðbúnaður dýranna er og ræða opinskátt hvað betur (Forseti hringir.) megi fara.


Efnisorð er vísa í ræðuna