145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil nota þennan vettvang til að hrósa sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra Gunnari Braga Sveinssyni. Hann er sem kunnugt er nýsnúinn heim eftir að hafa ávarpað allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna þann 2. október síðastliðinn. Í ræðu sinni þar vék ráðherrann sérstaklega að málefnum Vestur-Sahara sem dæmi um átök sem ekki mættu gleymast.

Vestur-Sahara er hernumið land eftir innrás Marokkó fyrir fjórum áratugum. Upprunalegir íbúar landsins eru velflestir landlausir og hafast við í flóttamannabúðum í Alsír á meðan Marokkóstjórn neitar að verða við kröfum alþjóðasamfélagsins um að virða sjálfsákvörðunarrétt fólksins.

Eftir þessum orðum hæstv. utanríkisráðherra var tekið. Ég veit til þess að áhugafólk um málefni Vestur-Sahara víða um lönd hafi kunnað að meta það að fulltrúi Íslands hafi notað tækifærið til að minna á þetta gleymda átakasvæði. Með áminningu sinni er hæstv. utanríkisráðherra vitaskuld að fylgja þeirri þingsályktunartillögu sem samþykkt var samhljóða hér á Alþingi fyrr á þessu kjörtímabili þess efnis að Ísland skuli á alþjóðavettvangi beita sér fyrir sjálfsákvörðunarrétti íbúa Vestur-Sahara.

Sjálf var ég 1. flutningsmaður tillögunnar, þá raunar sem varaþingmaður. Það gladdi mig mjög hversu góð og breið samstaða myndaðist um afgreiðslu hennar. Það er nefnilega þannig að þó svo að okkur almennum þingmönnunum, kannski sérstaklega okkur í stjórnarandstöðunni, finnist við stundum vera áhrifalítil, þá er oft hægt að þoka góðum (Forseti hringir.) málum áleiðis ef góð samvinna er fyrir hendi.


Efnisorð er vísa í ræðuna