145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þingheimur. Ég vil taka hér undir mál þeirra þingmanna sem hafa fært í tal það sem þeir lærðu í síðustu viku, í kjördæmavikunni, um þau mál sem brenna á íbúum í dreifðum byggðum landsins.

Það er eitt mál sem mig langar að taka sérstaklega út úr þeim pakka og beina því til þingmanna að ræða það sín á milli og setja sig inn í það. Við verðum virkilega að gera eitthvað. Það snýr að fjárhagsmálefnum byggðasamlaga um málefni fatlaðra. Svo virðist sem það vanti um það bil milljarð í málaflokkinn sem slíkan. Það er ekki vegna þjónustu eða bygginga sem fólkið langar að fara í, það er vegna starfsemi sem nú þegar hefur átt sér stað, vegna þjónustu sem lög hafa lagt á þessi byggðasamlög að inna af hendi, þ.e. sveitarfélögin eru búin að leggja út þetta fé. Ég vil biðja þingmenn að setja sig til dæmis í spor þjónustusamfélagsins á Vestfjörðum sem telur um 6.900 íbúa og vantar núna 100 milljónir. Að langstærstu leyti er það fé sem þegar hefur verið varið til þjónustu sem lög héðan skylda þá til að veita.

Það eru margar hliðar á þessu máli. Það sem við þurfum meðal annars að setja okkur inn í er: Hvernig verður heildarfjárveitingin til? Hvernig er henni skipt? Hver er aðstöðumunur dreifbýlis og þéttbýlis?

Væntanlega er það vilji löggjafans og allra að hver sá sem fatlaður er geti búið þar sem hann býr og þurfi ekki að flytja vegna fötlunar. Þá blasir við að þjónustan kann að vera dýr sums staðar í dreifbýli.

Ég hvet alla þingmenn til að setja sig inn í þessi mál og finna sameiginlega lausn á þeim vanda sem er að verða til ótrúlega skjótt því að það er örstutt (Forseti hringir.) síðan þetta verkefni fór til sveitarfélaganna.


Efnisorð er vísa í ræðuna