145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:19]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu hér og þessa fyrirspurn. Það má finna í mörgum skýrslum rannsóknarnefndar umferðarslysa, síðar rannsóknarnefnd samgönguslysa, miklar upplýsingar um það hver áhrif ölvunaraksturs eru. Það er alveg sama hvort menn eru greina útafakstur, veltur, framanákeyrslur, hvaða tegund umferðarslysa sem er, alltaf er ölvunarakstur allt of stór breyta í málinu og hefur kostað okkur allt of mikið.

Varðandi þyngingu refsinga eru til ýmsar rannsóknir í samfélagi eins og við búum í sem mæla með eða draga úr sérstaklega þungum refsingum. Vissulega þurfa að vera refsingar en það er alltaf matskennt hvernig þær eiga að vera. Hvort þynging refsinga hjálpar okkur í þessum málaflokki skal ósagt látið. Ef þungar refsingar leiða sjálfkrafa til minni brotatíðni ættu náttúrlega engin brot að vera framin í ýmsum löndum sem eru með fáránlega þungar refsingar á okkar mælikvarða, en það er ekki svo. Brotatíðni er mjög há í mörgum samfélögum sem búa við mjög þungar refsingar, þannig að orsakasambandið þar á milli er ekki alveg skýrt.

Það er einn mjög mikilvægur þáttur varðandi ölvunarakstur sem ég vildi nefna og það eru störf lögreglu. Í morgun komu fulltrúar lögreglu fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og ræddu málefni sín. Þar kom meðal annars fram að á umliðnum árum, fyrir ýmissa hluta sakir, hafa störf lögreglu færst af vettvangi inn við skrifborð. Fjárvöntun er ein af ástæðunum, eðlisbreytingar í samfélagi og verkefnum er önnur. Það vantar að efla hina sýnilegu löggæslu úti á vegum sem er, sérstaklega um helgar, í stanslausu eftirliti með ölvunarakstri. Ég tel að frá árinu 2007 hafi niðurskurður á þessu starfssviði verið svo mikill og ekki hafi náðst að vinna það til baka. Ég hvet innanríkisráðherra til að hugleiða það vandlega. (Forseti hringir.)