145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:28]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, fyrir umræðuna. Ég vil koma hérna aðeins inn á tengingu milli þingsályktunartillögunnar sem hv. þingmaður ræðir hér um og tillögu um norræna lýðheilsustefnu í áfengis- og tóbaksmálum sem Ísland hefur tekið þátt í og ætti að vinna eftir. Þar kemur einmitt fram að takmark allra þjóða á Norðurlöndum ætti að vera að lækka refsimörk ölvunaraksturs niður í 0,2 prómill. Þar er einnig komið inn á ný gagnleg úrræði, svo sem áfengislása í bifreiðar atvinnubílstjóra og einstaklinga sem dæmdir hafa verið fyrir ölvun við akstur. Við verðum bara að viðurkenna að sumir einstaklingar eiga það til að stunda ítrekuð brot á ölvunarakstri.

Árið 2014 var sögulegt á Íslandi því að aldrei höfðu færri slasast vegna ölvunaraksturs miðað við tíu ár á undan. Talan var 31 einstaklingur, þeir höfðu aldrei verið færri. Það ár lést enginn vegna ölvunaraksturs í fyrsta sinn samkvæmt gögnum Samgöngustofu svo langt sem gögn þeirra ná aftur. Þessum árangri náðum við ekki fyrr en 2014.

Virðulegi forseti. Ég tel að tillaga sem er samþykkt með 54 greiddum atkvæðum sé merki um samstiga þing. Þessi málaflokkur er það mikilvægur að þótt við náum að fækka tilfellum slysa þar sem áfengi er áhrifavaldur þá þurfum við einmitt að taka þessa umræðu reglulega. Ég tek undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að við megum ekki bara horfa á refsingarnar, við þurfum líka að huga að forvörnum. Við þurfum að uppfræða og leita lausna til að hjálpa því fólki sem er á þeirri braut að brjóta endurtekið af sér á þennan hátt.