145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:32]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra. Ég hef trú á því að sú menning, viðhorf og gildismat sem við búum við sé mikilvægasti þátturinn. Stór breyting sem við gerðum á ökunámi okkar var að taka upp svokallað æfingaakstursár. Við æfingaaksturinn flyst menning, viðhorf og gildismat foreldra yfir á nýjan ökumann. Ég hef trú á því að á undanförnum árum á Íslandi hafi viðhorf almennings breyst og þar af leiðandi sé sú yfirfærsla sem þarna á sér stað langmikilvægasti hluti ökunámsins, að börnin læri af foreldrunum almenna þekkingu um það hvernig best sé að komast af í umferðinni. Ég vil styrkja það verkefni foreldra svo að tryggt sé að það sem við erum að ræða hér komist til skila, þ.e. mikilvægi þess að allir ökumenn verði fyrir þeirri félagsmótun að ölvunarakstur sé fullkomlega fráleitt fyrirbæri.

Ég vil enn fremur geta þess að ég sakna gríðarlega áhrifaríkra auglýsinga á vegum Umferðarstofu, sem voru fyrir nokkrum árum að ég hygg, um ölvunarakstur og afleiðingar hans. Ég hef trú á að ef Umferðarstofa fær tækifæri til að hefja þær að nýju og ef lögreglan fær tækifæri til að hefja virkt og sýnilegt eftirlit með þessu þá muni þessir þrír þættir saman, að það sé skýrt í þeim viðhorfum sem við miðlum til ungu kynslóðarinnar, að við rekum ákveðinn áróður og að lögreglan fái tækifæri til að vera sýnileg í virku umferðareftirliti, verða til þess að við náum árangri.