145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni. Svo ég haldi áfram að vitna til skýrslunnar sem ég var fór yfir áðan, þ.e. um námskeið og aðrar leiðir en bara beinar refsingar, þá eru það vissulega viðurlög. Aðrar þjóðir fara þessar leiðir í auknum mæli þar sem refsingar og sviptingar duga takmarkað og talið er nauðsynlegt að leita nýrra leiða til að auka öryggi í umferðinni og um leið þá kannski lífsgæði þátttakenda með því að beina þeim sem brjóta af sér á réttar brautir. Vitnað er til þess að í Danmörku var lögunum breytt árið 2002 þannig að öllum sem fengu skilyrðislausa sviptingu vegna ölvunaraksturs var gert að sækja námskeið um akstur og áfengi áður en þeir fengu bílprófið aftur. Síðan skilaði DTU 2009 skýrslu þar sem var búið að meta árangurinn. Niðurstaðan varð sú að námskeiðin voru talin minnka líkur á því að þeir gerðust aftur sekir um ölvunarakstur.

Ég tek undir með hv. þingmanni sem hér talaði á undan mér og lögreglan kom til okkar í morgun en það eru engin ný sannindi að við höfum séð hana færast af götunum. Það er mun minna af henni, hvort sem er úti á þjóðvegum landsins eða í þéttbýli. Það skiptir máli. Þeir sem hafa einbeittan brotavilja vita þetta og nýta sér frekar færin. Áfengislásar einir og sér duga kannski takmarkað en allir geta tengt fram hjá sem það vilja. Við erum að hugsa um margar tegundir af aðgerðum en það skiptir samt líka máli að hafa þær fjölbreyttar.

Mér finnst hins vegar mikilvægasta einstaka aðgerðin, sem við ræðum hér seinni partinn í dag, aðgengi að áfengi. Við erum að fara að ræða áfengissölu í búðum. Ég tel mikilvægasta forvarnamálið að við sjáum til þess að áfengi verði áfram í sérstökum verslunum.