145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:40]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. innanríkisráðherra og hv. þingmönnum fyrir mikilvæg innlegg þeirra í umræðuna. Umræðan hefur svolítið mikið verið eins og markmiðið sé eingöngu að þyngja refsingar. Mig langar aðeins að rifja upp þau fjögur atriði sem þingsályktunartillagan fjallaði um.

1. Að lækka refsimörk ölvunaraksturs úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill og með samsvarandi mælingu öndunarsýnis. Þar er vitnað í góðan árangur annars staðar á Norðurlöndum þar sem þetta hefur gefið góða raun.

2. Að halda námskeið um alvarleika ölvunar- og vímuefnaakstur. Þarna kem ég inn á svipaðan þátt og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þar sem markmiðið er að nýta svipaða leið og hefur verið notuð fyrir unga ökumenn sem eru að læra undir bílpróf, að tala um fræðslu og auka skilning þeirra á alvarleika þess að setjast undir stýri ölvaðir.

3. Að hækka sektargreiðslur vegna ölvunar- og vímuefnaaksturs og að hluti þeirra renni í Forvarnasjóð. Með auknu fjármagni í Forvarnasjóði getum við farið í átök eins og Samgöngustofa og fleiri aðilar hafa farið í, í vitundarvakningu um alvarleika málsins.

4. Að skoða ný gagnleg úrræði í viðurlögum við ölvunar- og vímuefnaakstri. Það sem liggur þar á bak við eru til dæmis áfengislásar.

Auk þess er mjög mikilvægt, sem hv. þingmenn hafa komið inn, að auka sýnileika lögreglunnar. Það er unnið markvisst að því að reyna að bæta þar úr veit ég.

Að lokum vil ég þakka mjög svo fyrir þá góðu umræðu sem hefur átt sér stað og ég hlakka til að sjá þau frumvörp sem snúa að þessum málum koma inn í þingið og taka umræðuna.