145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[15:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þessa umræðu. Ég verð að taka undir það sem hv. þingmaður fór með hér á undan mér, þ.e. þau vonbrigði að við skulum ekki vera komin lengra í þessum málum og hvað þetta virðist vera þungt í vöfum og það að frumvarpið skuli vera lagt fram aftur án þess að athugað hafi verið eða tekið tillit til athugasemda sem bárust og það samlesið, því að það eru vissulega alvarlegar athugasemdir þegar taldar eru upp einar fimm greinar sem Rannsóknasetur í fötlunarfræðum gerir athugasemdir við. Við erum auðvitað öll sammála um það, geri ég ráð fyrir, að mikilvægt sé, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að þær þurfi að lesa. Ég hefði viljað sjá það gert af því að málið hefur komið fyrir þingið áður, og athugasemdir um að við værum að leggja fram óbreytt mál. Allsherjar- og menntamálanefnd gerði í sjálfu sér ekkert með málið annað en að samþykkja það með örlítilli orðalagsbreytingu og það er kannski það sem veldur vonbrigðum í sjálfu sér að ekki skuli gengið lengra. Mér finnst líka vert að hugsa til annarrar athugasemdar sem kom frá þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, en frumvarpið gerir ráð fyrir að heiti stofnunarinnar verði breytt. Bent er á að ekki sé til fé til að breyta öllu fræðsluefni, því að endurgera þarf bæði kynningar- og fræðsluefni og það felur í sér töluverða vinnu og útgjöld. Við þurfum því að gæta þess núna þegar við förum í 2. umr. um vinnu fjárlaga að fjármunir fylgi því, þannig að það sé í rauninni framkvæmanlegt að gera þetta ef stofnunin telur sig ekki hafa til þess fjármuni og væntanlega koma inn sambærilegar umsagnir aftur núna, geri ég ráð fyrir, af því að málið er lagt fram óbreytt eða vitnað verður til þeirra umsagna sem hér eru undir.

Það er svo kannski annar hlutur þegar maður hugsar um gagnrýnina sem birtist í þeim umsögnum. Svo virðist hafa verið, í stórum hópi þeirra sem komu að samningnum og hafa verið að vinna þessa vinnu, að fatlað fólk var ekki haft með, ég held að einn einstaklingur hafi verið þar í hópnum. Samfélagið er hamlandi, einstaklingarnir eru það ekki heldur samfélagið kannski, og þess vegna finnst manni að fólk sem býr við fötlun eða er fatlað hljóti að vera best til þess fallið að benda á leiðir til úrbóta. Þrátt fyrir að við séum hér einungis að fjalla um þessar orðalagsbreytingar þá er hitt allt undir. Eins og kom fram hjá ráðherra er verið að vinna að stóra málinu, ef ég hef skilið rétt, og það tekur lengri tíma.

Þegar málefni fatlaðs fólks voru flutt yfir til sveitarfélaganna átti að endurskoða þann flutning í fyrra. Það hefur dregist og það snýst auðvitað um krónur og aura og að hægt sé í rauninni að fylgja þeirri hugmyndafræði eftir sem að baki lá, þ.e. aukin og betri þjónusta við fatlað fólk í nærsamfélaginu. Sú framkvæmdaáætlun sem fylgdi átti að koma fram í frumvarpi en fram kom þingsályktunartillaga síðar. Hún átti svolítið að undirbyggja þessa fullgildingu. Niðurstaðan eftir þann flutning eða þessa yfirfærslu og allt það átti að undirbyggja okkur; hvar skortir okkur ráð og hvar skortir okkur aðstöðu o.s.frv. og taka átti málaflokkinn svolítið út. Það er kannski það sem við stöndum frammi fyrir núna, þ.e. þingið og sveitarfélögin. Eins og við vitum hefur töluvert verið talað um að málaflokkurinn sé að sliga sveitarfélögin. Við erum að tala um fólk en fyrst og fremst jafnrétti þess til aðgengis á við ófatlaða og þess vegna er mikilvægt að huga að því, þegar verið er að tala um að þetta sé viðkvæmur málaflokkur, að ekki er verið að skila því. Þegar verið er að tala um að skila málaflokki til ríkisins aftur þá ímyndar maður sér að fólk taki það kannski nærri sér að verið sé að skila því.

Við þurfum því að gæta að því hvernig rætt er um þessi mál því að undirstaðan er að fullgilda samninginn. Komin er fram tillaga um það frá nokkuð mörgum þingmönnum, úr öllum flokkum held ég. Stjórnarandstaðan leggur hana fram. Kannski er þetta ekki svo einfalt eins og hér er lagt til. Ég veit það hreinlega ekki, því að mér finnst að talað hafi verið fyrir því að þetta sé svo þungt í vöfum og svo mörgu þurfi að breyta. Ég dreg það ekki í efa þegar ég renni yfir þau ákvæði sem hér eru rakin, þ.e. þau réttindi sem njóta verndar samkvæmt samningnum. Það er samt ótrúlega sorglegt að við skulum vera svona skammt á veg komin að tryggja mannréttindi hjá einhverjum einum tilteknum hópi í samfélaginu og að það skuli ekki hafa verið til langs tíma, ekki bara núna, forgangsmál. Eins og ég sagði áðan snýr þetta líka að því að fólk sé fullgilt til þátttöku hvar sem það er í samfélaginu. Það upplifir það auðvitað ekki á meðan aðgengið er víða skert eða það hefur ekki aðkomu að málum.

Í 12. gr. segir, ég ætla að vitna í þingsályktunartillöguna sem hefur verið lögð fram, með leyfi forseta:

„Í samningnum er kveðið á um sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks til jafns við aðra. Fatlað fólk á alls staðar rétt á viðurkenningu sem aðilar að lögum og skal njóta gerhæfis til jafns við aðra og skulu aðildarríkin tryggja aðgengi að þeim stuðningi sem þörf er á.“

Eins og ég segi hefur mikil brotalöm verið þar á þrátt fyrir að við höfum verið að máta okkur við ýmis úrræði eins og NPA og fleira. Eins og kemur fram í 19. gr. þar sem samningurinn kveður á um rétt fatlaðs fólks til að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar, þá erum við samt enn í tilraunaverkefni og enn snýst þetta um að ekki eru tryggðir fjármunir til að fylgja þessu verkefni eftir. Það er eitt af því sem við þurfum við 2. umr. að huga að, því að það er óháð þeim samningum sem gerðir voru við sveitarfélögin varðandi yfirfærslu málaflokksins.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt mjög langt en maður er svolítið sorgmæddur yfir því að við skulum ekki vera komin lengra og að það gangi svona óskaplega hægt. Að breyta orðalagi er vissulega af hinu góða, ég ætla ekki að gera lítið úr því. Eins og ég sagði, orðfarið skiptir miklu máli og það þarf að vanda sig í þessum málum sem og mörgum öðrum. En á sama tíma finnst mér það eiginlega alveg ótækt að við komumst ekki lengra, jafnvel ekki á þessu kjörtímabili, þótt ég beri vonir í brjósti að við komumst áleiðis. Ég treysti á og hvet hæstv. innanríkisráðherra til að flýta þeirri vinnu, ég treysti því kannski ekki að hún verði jafn vönduð en það er hægt að setja málin í forgang.

Síðan er með það hvert mál eiga að fara. Nú erum við að fjalla um þennan samning í allsherjar- og menntamálanefnd. Samningur um réttindi barna fór held ég í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Verkefni þessum málum tengd eru oftast í velferðarnefnd. Mér finnst það líka vera partur af því, þetta þvælist kannski of lengi um og við erum einhvern veginn ekki nógu skilvirk. Það virðist ekki alveg liggja fyrir, kannski eiga allir samningar að fara í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hún hefur eftirlit, ég veit það ekki. Mér finnst þetta eiga frekar að tilheyra nefnd sem alla jafna fer með tiltekin mál. Það er vissulega svo að velferðarnefnd fer alla jafna með málefni fatlaðs fólks en þessi samningur er hjá allsherjar- og menntamálanefnd.

Ég er svo sem ánægð með þetta, hvert skref er gott skref, en við þurfum að vanda okkur og laga það svolítið sem hér var augljóslega ekki lagað núna við framlagningu málsins. Nefndin gerði það ekki síðast en ég held að núna sé okkur eiginlega ekki fært annað en að gera það.