145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[15:29]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að leggja orð í belg, einkum varðandi það sem hv. þingmaður sagði um 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar er kveðið á um réttindi fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs, sem er auðvitað algjört grundvallaratriði og hefur verið að koma meira og meira að upp á yfirborðið í allri umræðunni sem það sem þjónustuformið við fatlað fólk á að keppa að, að tryggja fötluðum sjálfstætt líf.

Hv. þingmaður minntist réttilega á í því samhengi að notendastýrð persónuleg aðstoð, NPA, er það þjónustuform sem kannski einna helst getur tryggt þetta sjálfstæða líf. Það er tilraunaverkefni í gangi, það eru eitthvað um 50 samningar. Í rauninni á ekkert að vera að kalla þetta tilraunaverkefni heldur er þetta verkefni sem er í gangi. En ég hjó eftir einu orðalagi og það er ekki einungis hjá hv. þingmanni heldur er yfirleitt í umfjöllun um NPA sagt að fjármagn hafi ekki verið tryggt til verkefnisins. Ég vil gera athugasemdir við þetta orðalag þótt ég geri mér grein fyrir að það er ekki komið frá hv. þingmanni eða eitthvað slíkt. Það var farið í sérstaka samþykkt á þingsályktunartillögum sem ég lagði fram um að NPA skyldi vera eitt þjónustuform í lögum um réttindi fatlaðs fólks. Það sem mér finnst einfaldlega er að það vantar fjármagn í málaflokkinn í heild sinni og það er algjör óþarfi að taka notendastýrða persónulega aðstoð sérstaklega fram vegna þess að notendastýrð persónuleg aðstoð er ekkert dýrari en önnur þjónusta. Það kom til dæmis ágætlega fram þegar verið var að rekja kostnaðinn við hvert rými í búsetuúrræði sem á að reisa á vegum Reykjavíkurborgar, kostnaður við hvern fatlaðan (Forseti hringir.) einstakling. Hann var meiri en í (Forseti hringir.) notendastýrðri persónuleg aðstoð, svo dæmi sé tekið. Mér finnst að við ættum bara að segja það vanti pening í málaflokkinn (Forseti hringir.) í heild sinni. NPA er eitt þjónustuformið þar á meðal og auðvitað þarf að lögfesta það. Ég er viss um að hv. þingmaður er mér sammála um þetta.