145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[15:47]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessa umræðu mikið því að hér hefur allt það komið fram í máli þingmanna sem ég vildi sagt hafa. Ég vil þá bara taka undir það og þakka fyrir þessa mjög upplýsandi umræðu. Í þessum lögum á að hreinsa út nokkur orð og það er alveg örugglega kominn tími til þess.

Það er kannski eina gagnið sem hefur verið af þessu ef maður hefur verið að kenna hegningarlögin, af því að orðið fáviti er nú á þessum slóðum, og fara yfir manndráps- og líkamsmeiðingakaflann og kynferðisbrotakaflann með ungu fólki, að þau reka gjarnan augun í þetta og þá hefur þetta orðið manni tilefni til að fjalla um samfélagsbreytingar, hvernig þessi orðanotkun hefur verið í tímans rás. Það hefur verið mjög gagnlegt og skemmtilegt að taka þessa umræðu við unga fólkið um það hvernig þetta hefur þróast. Ég sé að ég verð að koma mér upp kennsluefni sem varðveitir þetta því að það hefur skipt máli að þau setji sig inn í hvernig orðanotkunin hefur breyst í tímans rás. Klausan sem hv. þm. Steinunn Þóra las fyrir okkur og innihélt orðið krypplingur — slíkir textar gefa manni gjarnan tækifæri til að fjalla um samfélagsbreytingar. Þegar maður notar orðið samfélagsbreytingar sér ungt fólk aldrei neitt fyrir sér en það eru svona textar sem gefa því gildi og við getum þá lært af því.

Varðandi orðið „justice“ þá bara datt mér í hug — af því að kannski notar Bretinn „ministry of justice“ yfir dómsmálaráðuneyti eða slíkt, að það gæti verið skýring þar á.

Ef maður veltir því fyrir sér af hverju orð sem eru löngu aflögð í talmáli eru svona lengi í lögum þá hlýtur það að vera af því að stjórnsýslan er náttúrlega alltaf að vinna aftur fyrir sig. Hún er fjárhagslega á hnjánum, það eru allir á hlaupum að redda öllu. Af hverju fluttum við málefni fatlaðra? Það eru liðin örfá ár og það er allt í klessu. Það er stórmál að greiða úr því og álagið á fólkið sem vinnur í þessu er gríðarlegt og fyrir okkur að átta okkur á því um hvað þetta snýst, hverjir eru áhrifavaldarnir þarna. Það er tímapressa, það er verið að vinna fjárlög og þetta þarf að liggja fyrir í nóvembermánuði, einhverjar úrlausnir. Það eru allir undir rosalegu álagi við að finna lausn á þessu og þá sjáum við að það að reka nútímasamfélag með ekki fleiri íbúum krefst mjög mikils af öllum.

Ég held að núverandi ríkisstjórn ætti að hugleiða það að nýta sér tekjuöflunarmöguleika betur til að hafa fjármagn til að sinna þessum verkefnum sem æpa á okkur hvar sem á verður litið.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja þetta að svo komnu máli.