145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:11]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru ágætar vangaveltur. Ég held að við séum sammála um að það er kannski til fullmikils mælst að gjaldmiðillinn einn og sér skapi traust eins og hefði kannski mátt lesa af efni frumvarpsins. Ég skil það sem svo að við séum sammála um að það sem skipti mestu máli sé hvernig við hegðum okkur, gjaldmiðillinn sé síðan tæki sem við notum til að gera þessi viðskipti.

Það er líka talað um að það sé mjög mikilvægt, ég veit ekki hvort komið er inn á það í þessu frumvarpi, að gjaldmiðillinn taki mið af því hagkerfi sem er verið að nota hann í. Þeir sem búa í Þýskalandi hafa til dæmis búið við evru sem tekur mið af því sem er að gerast í Þýskalandi, hún styrkist þegar vel gengur í Þýskalandi og veikist kannski þegar á því þarf að halda til að efla útflutning.

Ef við tækjum upp evruna, sem tekur fyrst og fremst mið af þungamiðju þessa efnahagssvæðis, myntsvæðis evrunnar, væri ekki hægt að ætlast til þess að þegar eitthvað gerist hér þá mundi evran taka tillit til þess. Jafnvel gæti farið svo að þegar við þyrftum sérstaklega á veikum gjaldmiðli að halda þá væri evran sterk, og jafnvel styrkjast akkúrat þegar við þyrftum á því að halda að hún væri veik og svo öfugt.

Tengsl hagsveiflu Íslands við hagsveifluna á evrusvæðinu virðist engin eða mjög lítil. Ég er að vitna í kynningu frá Seðlabanka Íslands sem haldin var um valkosti í gjaldmiðilsmálum og hvað þurfi að hafa í huga; þetta er fyrirlestur hjá Félagi kennara viðskiptagreina í framhaldsskólum 4. september 2015, nokkuð nýlegt. Þórarinn G. Pétursson lýsir því að mjög lítil fylgni sé þar á milli og það gæti þá leitt til þess að við værum að flytja inn erfiðleika með því að taka upp evru, vegna þess að evran væri að styrkjast þegar við þurfum veikari gjaldmiðil og veikjast akkúrat þegar við þurfum sterkari gjaldmiðil. Hún mundi aldrei taka neitt tillit til okkar hagkerfis. En í (Forseti hringir.) frumvarpinu er sérstaklega verið að tala um að þetta eigi að bæta hagstjórnina og bæta hagsmuni atvinnulífsins. Ég sé ekki hvernig það fer saman.