145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:13]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst þetta: Það segir nú ekki berum orðum í þingsályktunartillögunni að gjaldmiðillinn efli traust heldur sé það notkun gjaldmiðilsins sem efli traust. En við erum alltaf að tala um þetta tæki að gjaldmiðillinn sé þannig úr garði gerður að notkun hans, skynsamleg notkun þessa gjaldmiðils í hagstjórnarlegu tilliti, efli traust. Það er ágætlega rakið að mínu viti í greiningu Seðlabankans frá 2012 um gjaldmiðilinn og umgjörð hans hvernig krónan er í smæð sinni ákveðinn leiksoppur í alþjóðlegum viðskiptum, getum við sagt, og hefur líka með atbeina stjórnmálamanna í gengisfellingum fyrri tíma haft veruleg áhrif á hegðun þessarar þjóðar, hegðun almennings. Þannig að gjaldmiðillinn — já, möguleikar sem í honum felast til gengisfellinga alla 20. öldina, til pólitískra afskipta og til þess að hygla sérhagsmunum; gjaldmiðillinn skapaði þessa umgjörð, hann er svona tól þessi gjaldmiðill. Hann var ekki til þess að efla traust á íslensku efnahagslífi. Hann jók vantraust.

Ég held að lærdómurinn sem við erum að draga núna sé einfaldlega sá — ég fór aðeins yfir það í ræðu minni — að það lýsir ekkert trausti útlendinga á íslensku krónunni að þeir séu reiðubúnir að gefa eftir allar sínar kröfur til þess að fá fjármuni greidda í íslenskum krónum. Þetta eru ekki bara nokkrar krónur, þetta eiga að heita nokkur hundruð milljarðar. En þeir eru alveg fyllilega tilbúnir til þess vegna þess að þeir sjá það allir, það bara blasir við, þetta er veruleiki sem blasir við, að þessar krónur eru verðlausar.

Það þýðir í mínum huga að maður ber ekki mikið traust til þess gjaldmiðils og maður kannski hugsar sig um í framtíðinni, hvort maður (Forseti hringir.) vill eiga slíkan gjaldmiðil eða fjárfesta í honum eða ávaxta fé sitt í honum. Er það ekki?