145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:41]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi ekki valdið þeim misskilningi að ég hafi verið að biðja hv. þingmann að verja gerðir seðlabanka Evrópusvæðisins, ég held að það sé alveg óverjandi. En varðandi það að hægt sé að flytja inn aga með því að taka upp annarra manna gjaldmiðil þá tókst Grikkjum það ekki. Hvers vegna ætti Íslendingum að takast það? Ég er alveg sammála því að margt fór úrskeiðis í efnahagsstjórn Grikklands í aðdraganda þessa hruns, en það gæti alveg eins verið að þeir hefðu orðið fyrir náttúrulegum skakkaföllum í utanríkisviðskiptum sínum eða einhverju öðru, einhverju sem þeim var ekki kenna. Mér finnst svolítið einkennilegt að segja að þetta sé einhvern veginn grískum almenningi að kenna, þess vegna geti hann sjálfum sér um kennt. Mér finnst það vera harkalegt. Mér finnst þessi áföll í Grikklandi benda til þess að ekki sé nægilegur samhugur milli Þjóðverja og Grikkja, ekki nægilegur skilningur á hinum ólíku samfélögum þessara þjóða. Það leiðir til þess að þegar kemur að því að hjálpa Grikkjum þá rísa Þjóðverjar upp og segja: Við ætlum ekki að gera þetta með okkar skattpeningum. Það er vandinn.

Hv. þingmaður segir að það sanni hvað Grikkir séu ánægðir með evruna að þeir vilji ekki ganga út úr myntbandalaginu. Það vita það allir að það er ekki auðvelt að ganga úr myntbandalagi. Það er miklu erfiðara en að ganga í það. Um leið og einhver stjórnarmaður hóstar því upp að fyrir dyrum sé að ganga út úr myntbandalaginu þá er gert áhlaup á gjaldmiðilinn um leið. Allir peningar flýja land. Það þarf alla vega að gerast skyndilega þannig að það sé bara gert yfir nótt. Það má aldrei viðurkenna að það eigi að fara að hefja útgöngu. Ég held að Grikkir geri sér fulla grein fyrir því að allar eignir þeirra mundu lækka alveg stórkostlega í verði ef slíkum áformum yrði stunið upp. Þess vegna eru þeir fastir í evrunni og þeir gera sér fulla grein fyrir því.