145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:45]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í síðari ræðu minni aðeins koma inn á það hvernig við gætum, ef við kæmumst að þeirri niðurstöðu að við viljum hafa krónu áfram eftir að hafa skoðað vandlega vandamálin sem herja núna á myntbandalagið í Evrópu og þau jaðarríki sem hafa tekið upp þá mynt, meðan við erum að skoða það. Ég held að þetta sé ágætistími til að skoða það vegna þess að þegar skýrslan, sem títt hefur verið rædd hér, var gerð árið 2012 í Seðlabankanum og unnið var að tímann fram að því var kreppan í Evrópska myntbandalaginu alls ekki komin fram að fullu. Nú er hún komin fram að fullu þótt ekki sé búið að leysa hana og þess vegna getur verið mjög gott að taka aftur púlsinn á því hvort það sé enn skoðun Seðlabankans að hérna sé aðild að því myntbandalagi raunhæfur möguleiki í ljósi þeirra hörmunga sem hafa dunið yfir þau ríki sem hafa tekið upp þessa mynt og gengið í myntbandalagið. Og einnig hvað þurfi að fylgja ef við ætlum að tileinka okkur þann aga sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að væri nauðsynlegur til að geta búið slíkt myntbandalag.

Ég er alveg sammála því að það þarf aga í efnahagslífinu en við getum samt orðið fyrir áföllum sem eru ekki vegna agaleysis heldur vegna aflabrests eða vegna þess að hér koma tvö, þrjú eldgos á sama tíma og innviðirnir bresta. Það væri ekki vegna agaleysis heldur væri það efnahagsskellur sem yrði að bregðast við með gengislækkun. Hún er ekki möguleg ef við erum í myntbandalagi og þá munu allir í landinu sem verða fyrir skellinum ákveða að færa peningana sína úr landi, vegna þess að það verður greinilega ekki góð arðsemi í landinu á næstunni, landið þarf að jafna sig eftir áfallið og ef þú ert eignamanneskja ferðu með peningana úr landi. Það er ekkert sem stoppar þig af því það eru engar hömlur á millifærslu með fé. Fjármagnið sogast út úr landinu og dýpkar kreppuna.

Hverjir sitja eftir? Vinnandi fólk sem getur ekki svo auðveldlega farið með sjálft sig úr landi, eins og þeir sem eiga eignir og láta eignirnar vinna fyrir sér. Þeir færa peningana sína úr landi í evrum, alveg frábært. Þeir eru hólpnir en þeir sem eftir sitja eru í dýpri kreppu vegna þess að nú vantar peningana í landið. Þá þarf að hringja í Merkel og spyrja hvort Þjóðverjar séu til í að fjármagna bankana, sem eru einkabankar en eru orðnir algjörlega peningalausir. Og hún segir: Jú, það er allt í lagi, en þá verðum við að fá veð. Veðin í bönkunum eru búin og eru lítils virði vegna þess að eignir á Íslandi hafa fallið í verði. En ef ríkið kemur með veð í auðlindum landsins, fossunum og virkjununum, þá skulum við endurfjármagna þessa einkabanka. Þetta er það sem er að gerast í Grikklandi. Það er kallað eftir ríkisveðum á fjármögnunina sem bankarnir eru að fá. Skuldir gríska ríkisins hafa aukist úr 100% af þjóðarframleiðslu í 180% á meðan hjálparaðgerðir Þjóðverja og þýska seðlabankans hafa staðið yfir.

Hverjir greiða skattana? Það er almenningur í Grikklandi. Eða eins og hv. þingmaður komst svo vel að orði: Auðmennirnir í Grikklandi eru löngu búnir að koma sínu fé til Tortola og hafa ekki greitt neina skatta. Það er almenningurinn. Hvað er búið að gera? Það er búið að hækka virðisaukaskattinn. Var hann ekki 12%? Er hann ekki kominn langt upp fyrir það?

Það hefur verið séð til þess að skellurinn lendi algjörlega á vinnandi fólki. Ég veit að það er góður hugur sem fylgir máli, við viljum standa vörð um almenning, en því miður er það þannig að af tvennu illu er verra að vera í myntbandalagi en að vera með sjálfstæða mynt.

Krónan er jafnaðarmaður. Krónan hefur þau áhrif að ef hér verður efnahagslegt áfall og við sjáum að hagkerfið verður ekki jafn burðugt og áður um nokkurt skeið þá fellur gjaldmiðillinn og allir eignamenn taka þátt í því falli, við launamenn, launin okkar lækka. Og ef við erum svo gæfusöm að vera búin að afnema verðtrygginguna, sem er algjört böl, lækka skuldirnar okkar líka. En ef við erum með erlendan gjaldmiðil halda þær verðgildi sínu meðan launin okkar hafa verið handvirkt lækkuð um 20% eða við missum vinnuna. Þetta er allt þannig að ef við verðum fyrir efnahagsáfalli mun eitthvað slæmt gerast og það er verra ef við erum í myntbandalagi.

Ég held að þessi umræða sé mjög gagnleg fyrir okkur til að fara yfir þessar sviðsmyndir. Hvernig bitnar það á ólíkum hópum ef við erum í myntbandalagi? Hvernig bitnar það á ólíkum hópum ef við erum með sjálfstæða mynt sem getur dreift áfallinu í hagkerfinu víðar og getur líka brugðist þannig við að hagkerfið komist fyrr á lappirnar, að við þurfum ekki að fara í gegnum nálarauga gjaldþrotsins með stóran hluta hagkerfisins heldur verði sjálfvirk aðlögun, hagkerfið komist fyrr á lappirnar? Það er eins og munurinn á því að vera stráið sem sveigir eða tréð sem brotnar.

Þetta þurfum við að ræða. Ég fagna þessari umræðu og er fullur trausts á því að eftir því sem við setjum okkur dýpra inn í þetta (Forseti hringir.) verðum við meira og minna afhuga því að ganga í myntbandalag. Takk fyrir.