145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:55]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Eins og kom fram í máli mínu áðan þá hefur hann miklu meira vit á peningamálum en ég, held ég, og ég skammast mín ekkert fyrir að viðurkenna það.

Ég hef verið að velta fyrir mér lífskjörum á Íslandi. Það kom fram í umræðum áðan hvernig hér var stanslaust gengisfellt fyrir sjávarútveginn á sínum tíma með tilheyrandi búsifjum fyrir fólk, venjulegt launafólk tapaði öllum sínum eignum. Ég hef hitt fólk sem hefur tapað öllu sínu tvisvar til þrisvar á lífsleiðinni út af þessari krónu, og það nefnir alltaf krónuna.

Mig langar til að segja dæmi. Árið 2005 tók ég lán upp á 11 milljónir í Íbúðalánasjóði til að kaupa mér hús. Á sama tíma, árið 2005, tóku vinir mínir í Danmörku lán upp á 11,5 milljónir. Nú tíu árum seinna stendur lánið mitt í 20 milljónum, en þeirra lán stendur í tæpum 7 milljónum. Þau eiga eftir að borga af því í tíu ár, þá eru þau búin að því, en ég á enn eftir 35 ára þrautagöngu og verð sennilega búinn að borga vel á annað hundrað milljónir þegar upp er staðið í þessu láni í 40 ára gömlum spýtukofa suður í Grindavík.

Það er þetta sem ég er að velta fyrir mér: Hvernig í ósköpunum getum við reynt að finna leið, þessi þjóð, og ákveða hvernig við viljum hafa gjaldmiðilsstefnuna? Það er alveg ljóst að þetta gengur ekki svona. Og það eru allir að kalla eftir því að einhverjar breytingar verði.

Ég heyri miklu meira um það úti í samfélaginu að fólk vill fara að skoða það alvarlega að ríkisstjórnin standi við loforð sitt um atkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið og ganga svo þar inn. Það yrði sennilega einhver mesta búbót fyrir íslensk heimili í lýðveldissögunni. Það hefði sennilega verið enn meiri búbót og hagræðing fyrir heimilin í landinu en nokkurn tímann skuldaleiðréttingin.