145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:13]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég náði ekki alveg hvert svarið var, hvort hv. þingmaður kysi innri gengisfellingu, sem tæki mörg ár og væri mjög erfið fyrir vinnuaflið, eða aðlögun í gegnum gengið, eins og flestir hagfræðingar virðast skilja að er valkosturinn.

Það var talað um stöðugleikann og að mikilvægt væri að hafa stöðugan gjaldmiðil. Er evran stöðugur gjaldmiðill? Hefur hv. þingmaður kannað hvernig breytingar evru gagnvart dollar hafa verið undanfarin ár? Ég sé ekki betur en sveiflan hafi verið í tugum prósenta. Hvaða stöðugleiki er það? Eða vill hv. þingmaður að við beinum öllum viðskiptum okkar til evrópska myntsvæðisins? Er það fjölbreytnin sem verið var að tala um hér rétt áðan? Felst hún í því að beina öllum viðskiptum okkar til eins myntbandalags? Ég held ekki. Þess vegna er mikilvægt að við höfum gjaldmiðil sem getur tekið mið af gengisvog okkar í viðskiptum okkar við mörg lönd.

Ég hef líka áhyggjur af einu. Ég hef áhyggjur af því ef við gengjum í svona myntbandalag. Spurning mín til hv. þingmanns er: Hefur hv. þingmaður eins og ég áhyggjur af því að við gætum flutt inn óstöðugleika í gegnum myntbandalagið, evruna, vegna þess að evran tekur mið af þeim þörfum sem eru í Þýskalandi og þær eru alls ekki í takt við þarfir okkar? Við erum útflytjendur á orku, útflytjendur á próteini, en þeir eru innflytjendur á sömu hlutum. Það er mjög líklegt að þeir séu akkúrat í öfugri sveiflu við okkar, eins og hagrannsóknir sýna reyndar aftur í tímann. Ég veit ekki um framtíðina en það er ekkert sem bendir til þess að það sé að fara að breytast. Gæti þessi innflutti agi ekki breyst í það að vera innfluttur óstöðugleiki? Væri ekki óæskilegt að við værum að trufla hagkerfið hérna með mynt sem væri allt of sterk eða allt of veik og við þyrftum einhvern veginn að bugta okkur og beygja í því?