145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:29]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Til að takast á við þann veruleika að hafa krónuna sem viðvarandi gjaldmiðil til framtíðar þá er eitt mikilvægasta verkefnið að koma á og innleiða það vinnumarkaðsmódel sem hefur aldrei tekist að vera með á Íslandi nema í mjög stuttan tíma í einu. Ég nefndi áðan árin eftir þjóðarsáttina. Við verðum að horfa til þess tíma og þess stöðugleika sem náðist með því að innleiða á vinnumarkaði þau samskipti sem dugðu til að stilla til friðar sem sást á genginu, í verðbólgunni og á vinnumarkaði.

Ég hef heyrt í opinberri umræðu að fjármálaráðherra hafi nú kallað eftir slíku. Hann er stór gerandi í því og virkilega stórt verkefni fyrir hann að koma því á að eitthvert vinnumarkaðsmódel festist hér í sessi þannig að traust ríki. Hann hefur núna það stóra verkefni að klára samninga við þá opinberu starfsmenn sem ekki er búið að semja við, eins og lögreglumenn, en það gengur vægast sagt ekki vel. Þessi óróleiki — af hverju er hann alltaf svona miklu meiri hjá okkur en hinum? Það er af því að það eru alltaf svo margar þjóðfélagsstéttir á Íslandi sem finnst þær hafa verið skildar eftir. Þeim finnst að það sé verið að mismuna. Þeim finnst sumir fá meira en aðrir. Það er stærsti hlutinn af því verkefni að stilla hér til friðar og til að geta haft krónu verða menn að finna einhverja leið til að skipta jafnar og stilla þannig til friðar.