145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:37]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé samt enn þá smávandamál ef við ætlum að leyfa viðskipti með marga gjaldmiðla. Menn munu náttúrlega ekki skipta erlendum gjaldmiðlum yfir í krónu komist þeir hjá því. Það er ekki hægt að gefa sér að þeir muni gera það. Viðskipti eiga sér stað úti um allt land dagsdaglega þar sem menn fá greitt í erlendum gjaldmiðlum og menn skipta þeim ekki yfir í íslenskar krónur, borga þar af leiðandi ekki skattskyldu með þeim. Fyrir vikið verður margfalt hagkerfi í gangi. (Gripið fram í.) Ég veit ekkert hvað það kallast, þetta bara er í gangi og menn freistast til að fara jafnvel til útlanda með þennan gjaldeyri og kaupa sér þar aðföng fyrir hann eða nýta hann með öðrum hætti. Það er alltaf hægt að losna við hann og þá myndast náttúrlega margir markaðir með gjaldeyri ef þetta verður að einhverju umfangi. Á tímum þegar þetta væri sérlega hagfellt út af einhverjum aðstæðum í krónunni mundi þetta náttúrlega alltaf aukast þannig að þetta yrði væntanlega alltaf að vera bannað og algjör skylda að skila inn öllum gjaldmiðli.

En við förum ekki að lengja þessa umræðu frekar. Takk fyrir, herra forseti.