145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir áhugavert sjónarmið hv. þingmanns að hann vilji frekar fá kjaraskerðingu heilt yfir alla þjóðina frekar en fá það atvinnuleysi sem hann telur að yrði ef við værum hluti af stærra myntbandalagi, svo sem evrunni. En ég velti þá fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að hér eigi alltaf að ríkja gjaldeyrishöft eða fjármagnshöft af einhverju tagi þar sem það hlýtur þá að liggja fyrir. Það sem mönnum hlýtur að vera ljóst að þegar sést til efnahagslegs illviðris þá eru þeir fljótir burt sem skilja eitthvað í hagkerfinu. Og hverjir skilja eitthvað í hagkerfinu? Jú, þeir sem vinna mest í því, þ.e. bankamenn, auðmenn, fólk sem á peninga, verslar með peninga, vinnur með peninga. Það eru þeir einstaklingar, þau fyrirtæki og þær samsteypur sem mundu væntanlega forða sér sem fyrst út úr krónunni og skilja tapið eftir handa öllum hinum. Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður tekst á við þá spurningu.