145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:54]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er svo stórt spurt að ég er ekki viss um að ég treysti mér til að svara, að ég hafi hreinlega þekkingu eða vit til að svara þessu á viti borinn hátt. Hitt veit ég að hagsmunir norðurs og suðurs, ríkra og snauðari ríkja, innan myntsvæðisins eru ekki hinir sömu. Ég hlustaði á mann halda erindi ekki alls fyrir löngu um þessi mál í Evrópu. Þar var spurt: Á okkar þjóð að segja sig úr myntsamstarfinu? Hann svaraði: Nei, kannski væri best fyrir myntsamstarfið að Þjóðverjar segðu sig úr því, Þjóðverjar og Hollendingar. Þetta var maður sem var fremur að tala út frá hagsmunum suðursins. Það sem hann var í raun að setja kastljósið á var að hagsmunir ólíkra eða mismunandi félagslegra og efnahagslegra aðstæðna færu ekki saman. Þeir færu ekki saman í sameiginlegri peningapólitík.