145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:00]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Evran ekki stóri vandinn? Evran er vissulega stór vandi hjá Grikkjum. Evran er ekki eini vandinn, það er kannski það sem ég sagði og ég tek undir með hv. þingmanni, það er alveg rétt að Grikkir undirgangast myntsamstarfið að hluta til, að því er haldið er fram, á fölskum forsendum þar sem fjölþjóðleg ráðgjafarfyrirtæki komu við sögu og vafasamar greiðslur hafa verið uppi á borði.

Vandinn í Grikklandi er ekkert einfaldur, alls ekki. Þetta er mjög margbreytileg og breytt mynd sem þarf að skoða til að fá góðan skilning á því sem þar er að gerast. Það að Grikkir vilji endilega halda sig í evrunni og innan Evrópusambandsins — það er eitt að ganga inn í Evrópusambandið eða inn í jafnvel evrópskt efnahagsumhverfi (Forseti hringir.) eins og við gerðum og það er annað að segja sig úr því. Það er bara ekki sama ákvörðunin og það er það sem gríska þjóðin stendur frammi fyrir. Hún stendur frammi (Forseti hringir.) fyrir allt öðru vali en hún hefði gert ef hún væri ekki innan sambandsins og ætti núna að taka ákvörðun um það hvort hún vildi vera inni eða úti.