145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:03]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður var að vísa í mín orð þegar hann sagði að gefið væri til kynna að gjaldmiðillinn skipti ekki máli. Gjaldmiðillinn skiptir máli og minn málflutningur gekk út á að sýna á hvern hátt hann gerði það. Hins vegar sagði ég að það væru kostir og gallar að fylgja litlum og einnig stórum gjaldmiðli.

Jú, auðvitað þegar við berum saman mismunandi kerfi, spillingu, vinnumarkað, lífeyriskerfi þá þarf gera það alls staðar, ekki bara í Grikklandi. Eða halda menn að það sé engin spilling í Þýskalandi? Að það sé engin spilling í Bretlandi? Að það sé engin spilling í Bandaríkjunum? Hvaðan halda menn að þetta ráðgjafarfyrirtæki hafi komið sem tók þátt í að svindla Grikkjum undir myntbandalagið? Það var ekki grískt fyrirtæki. Það var komið frá hinum aðilunum. Og hvaðan voru þeir aðilar sem höfðu verið að lána til Grikklands, svo ég vitni aftur í Chomsky sem segir að óábyrgum lánum fylgi óábyrgir lánveitendur? (Forseti hringir.) Auðvitað þarf að skoða þessa mynd alla og þegar hún er skoðuð er fráleitt að skella allri skuld á Grikki eina, fráleitt.