145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:17]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir áhugaverða ræðu. Ég tel raunar ekki endilega augljóst að Íslendingar hafi verið illa læsir á efnahagsmál. Ég held einmitt að hegðun Íslendinga í efnahagsmálum hafi sýnt á 20. öldinni að þeir eru ágætlega læsir. Þjóðin, í stórum stíl held ég, komst einfaldlega að þeirri niðurstöðu að það borgaði sig ekki að spara í þessum gjaldmiðli vegna þess að hann var gengisfelldur síendurtekið. Og ekki var hann mjög sigurstranglegur sem geymslustaður fyrir verðmæti. Það varð því hegðunarmynstrið að reyna frekar að kaupa eitthvað fyrir hann í hvelli, reyna að koma verðmætunum í fastara form. Þetta var saga 20. aldarinnar sem leiddi til þess að oft voru mjög skringilegar sveiflur í einkaneyslu. Ég held að þetta sé einmitt vegna þess að þjóðin var alveg ágætlega læs á það hvaða kringumstæður gjaldmiðillinn skapaði. Hann skapar sveifluhugsun. Hann gerir þjóðina að spákaupmönnum. Ég held hann hafi gert það. Nú búum við kannski við gervistöðugleika út af því að við búum við höft.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í markmiðin, sem við setjum hér fram. Við teljum það allt vera skynsamleg markmið, skynsamlegar kröfur sem við hljótum að gera til gjaldmiðils. Við munum aldrei búa í fullkomnum heimi. Við erum að tala um faktora sem eiga að ráða för. Telur hann þessi markmið vera of háleit og af hverju þá, ef það er? Eigum við ekki að reyna að ná vöxtum niður? Hvernig gerum við það? Eigum við bara að sætta okkur við að hér borgum við 8, 9 eða 10% vexti? Er þetta ekki verkefni sem við eigum að taka alvarlega? Búum við ekki við vantraust á krónunni og erum þess vegna með höft? Og eigum við að sætta okkur við það? Er það háleitt markmið að sjá fyrir sér veröld þar sem það er ekki og þar fram eftir götunum?