145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er því fullkomlega ósammála að Íslendingar séu almennt læsir á fjármál. Ég tel reyndar að sú hegðun sem hv. þingmaður nefnir í kringum það að menn hafa lært að spara ekki hér á Íslandi — það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni. Ég held bara að það sé ekki merki um læsi. Ég held að það sé merki um að menn mynda sér aldrei verðskyn á Íslandi. Maður finnur það. Maður finnur að hlutirnir hækka í verði. Maður þarf ekki að skilja neina hagfræði til að átta sig á þessu. Maður kaupir ekki hamborgarann á 100 kr. vegna þess að maður hugsi eitthvað með sér. Maður er bara vanur því að hann hækki um 100 kr. af og til, maður bara lifir með því. Það er hluti af því að vera á Íslandi. Ég er ekki sammála því að þetta fjármálalæsi sé til staðar þrátt fyrir dæmi hv. þingmanns.

Það er hins vegar rétt að fólk sparaði ekki. Það gat hins vegar sparað verðtryggt. Það gat sparað í erlendum gjaldeyri. Í staðinn tók það lán í erlendum gjaldeyri sem menn áttu að vita að var óskynsamlegt. Bankamenn áttu að vita það. Þeir áttu að uppfræða viðskiptavini sína um það vegna þess að það var deginum ljósara löngu fyrir hrun. Allir sem höfðu hundsvit á peningakerfinu og voru að fylgjast með vissu þetta, fullyrði ég; vissu þetta og áttu að vita þetta. Það fer fátt meira í taugarnar mér hér í þingsal en þegar menn láta eins og hrunið hafi komið öllum á óvart. Það kom engum á óvart sem var að fylgjast með og skildi hvernig þetta kerfi virkar. Þetta kerfi virkar þannig að ef lán hætta að vera aðgengileg þá þornar kerfið upp ef allt kerfið er byggt á lánum. Þetta er ekki mjög flókið. Þetta fór jafnvel fram hjá reyndustu stjórnmálamönnum, að því er virðist.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns, um kröfurnar sem lagðar eru fram í þingsályktunartillögunni, þá eru þetta auðvitað virðingarverð og skynsamleg markmið. Það væri vissulega óskandi að við næðum þeim öllum. Hvort það sé raunhæft með krónunni — ég þori næstum að fullyrða að það sé ómögulegt nema með byltingu í fjármálatækni sem ég sé ekki fram á að eigi sér stað á næstunni.

Hvort við ætlum að sætta okkur við háa vexti eða ekki er í sjálfu sér ekki spurning um það hvort við sættum okkur við það, heldur hvort við erum til í að velja það eða lánaþurrð í staðinn. Ég kemst ekki lengra í þessu svari, virðulegi forseti.