145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum hér á þriðjudagseftirmiðdegi, á fögrum haustdegi. Það eru rólegheit hér í þinginu, þingmannamál á dagskrá og léttleiki og þægileg stemning í þingsal.

Fyrir réttum sjö árum, þann 6. október 2008 var heldur betur annað ástand hér á bæ. Þá nötraði Alþingi, það var nýbúin að vera útsending með blaðamannafundi Geirs H. Haardes, þáverandi forsætisráðherra, og hann var að tilkynna þjóðinni um setningu neyðarlaga. Alþingi nötraði, fjármálakerfið nötraði, íslenska stjórnkerfið nötraði og almenningur beið skelfingu lostinn. Hrunið, sem ýmsir hafa nú leyft sér að kalla hér hið svokallaða hrun en ég kalla Hrunið með stórum staf, var orðið að veruleika í íslensku samfélagi.

Það hrun var tvöfalt hrun. Það var annars vegar íslenska fjármálakerfið sem riðaði til falls, svo gott sem allt. Það var einhver örlítil prósenta sem stóð uppi en hins vegar hrundi íslenski gjaldmiðillinn, íslenska krónan þannig að við vorum að takast á við tvöfalt hrun. Gengishrun íslensku krónunnar olli gríðarlegri verðbólgu sem leiddi til þess, samhliða því sem íslensk heimili voru að takast á við tekjutap, atvinnumissi og eignatap, að verðtryggðu lánin hækkuðu til samræmis við verðlagsvísitölu. Núna sjö árum síðar stöndum við hér í rólegheitum og ræðum þetta fantagóða mál þingmanna Bjartrar framtíðar og 1. flutningsmaður, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, mælti hér fyrir því og ég fagna þessu máli og vona eindregið að það fái afgreiðslu frá Alþingi.

Ég harma hins vegar að það sé ekki ríkisstjórn Íslands sem beri uppi þetta mál því þetta er það stórt mál að þeir sem fara með völdin í samfélaginu í dag eru þeir sem eiga að bera það uppi og láta sig það varða.

Eftir hrun ræddum við mikið ýmsa hluti en tvennt kom mjög oft fyrir í umræðunni, það var gjaldmiðilsumræðan og verðtryggingin. Þessi umræða hefur ekki verið hástemmd upp á síðkastið enda tókst svo vel til hjá Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, og Steingrími J. Sigfússyni, þáverandi fjármálaráðherra, að reisa Ísland við með aðstoð landsmanna að núverandi ríkisstjórn fékk í vöggugjöf góðæri. Verðbólga hefur verið tiltölulega lág og íslenska krónan hefur verið að styrkja sig, auðvitað með handstýrðum aðgerðum frá Seðlabankanum líka út af höftunum, þannig að þessa stundina erum við í vari hvað þessi mál varðar. En þetta er svikalogn því við þurfum aftur að takast á við íslensku krónuna og við þurfum aftur að takast á við hækkun á verðtryggðum lánum vegna verðbólgu þegar íslenska hagkerfið fer í næstu sveiflu.

Þessi tillaga lýtur að því að mótuð verði framtíðarstefna fyrir Ísland í gjaldmiðilsmálum og gjaldmiðillinn stuðli að trausti á íslensku efnahagslífi, veiti möguleika á stöðugra verðlagi, auki frelsi í viðskiptum við útlönd, henti íslensku atvinnulífi betur og auðveldi hagstjórn. Allt eru þetta þættir sem við Íslendingar skiljum mætavel í dag eftir vendingar og erfiðleika síðustu ára. Fólk getur greint á hvað sé rétt að gera í stöðunni. Við erum þó nokkur hér á Alþingi sem teljum að það sé ábyrgðarlaust að kanna ekki hvaða áhrif það hefði að taka upp nýjan gjaldmiðil. Út frá hagfræðilegum sjónarhornum er augljóslega hagfelldast að gerast aðilar að myntbandalagi. Þá kemur evran nánast ein til greina en einhliða upptaka gjaldmiðils annarra þjóða er hreinlega ekki raunhæfur kostur þannig að þessi tillaga fjallar að sjálfsögðu um upptöku evru. En hún fjallar náttúrlega um að kanna kosti þess og ég vona að ríkisstjórnin hafi þann manndóm í sér að stuðla að því að tillagan verði samþykkt svo við getum fengið umfjöllun um þetta.

Hv. þingmaður sem talaði á undan mér í dag talaði um íslensku leiðina sem hann vildi fylgja. Íslenska leiðin virðist vinsæl meðal ýmissa stjórnmálaflokka á Íslandi og ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvað er svona eftirsóknarvert við þessar gríðarlegu hagsveiflur en það virðist vera einn helsti kostur íslensku leiðarinnar að íslenska krónan, sá baggi sem hún er, hjálpar okkur í eftirleiknum af ólgunni sem hún skapar. En hún hjálpar ekki íslenskum heimilum sem eru með verðtryggð lán. Það er einmitt mál sem ég hef viljað ræða hér í þinginu við forsætisráðherra og tengist mjög beint gjaldmiðilsmálum en mér er óskiljanlegt hvernig á að halda hér áfram með íslensku leiðina og verðtryggingu á sama tíma.

Íslenskur almenningur er búinn að hafna verðtryggingu þótt hann taki enn þá verðtryggð lán því það er eiginlega það eina sem býðst og er kannski öruggasti kosturinn í þeirri flóru sem er hér og lækkar líka greiðslubyrði og gerir fólki kleift að taka hærri lán. En ég sakna þess að hvorki er verið að vinna að alvörugjaldmiðilsstefnu af hálfu núverandi ríkisstjórnar né virðist vera nokkur hreyfing í því að koma okkur út úr verðtryggingunni. Við erum búin að leiðrétta verðtrygginguna eftir þessa miklu ólgu og við hljótum þá að ætla að leiðrétta hana þegar næsta kynslóð verður fyrir barðinu á henni nema það eigi að lokka unga fólkið í dag til áframhaldandi búsetu á Íslandi af því að það eigi að bera kostnaðinn af góðæristímanum sem mín kynslóð og eldri kynslóðir fóru í gegnum og fengu síðan leiðrétt að einhverju leyti, en langflestir þurftu náttúrlega bara að sitja uppi með það gríðarlega tjón sem hér varð og þær alvarlegu afleiðingar sem hrunið hafði fyrir miklu víðtækara svið samfélagsins en bara efnahagslífið.

En það eru sem sagt sjö ár frá hruni. Skammtímahugsunin er þannig að okkur finnst ekki ástæða nema stjórnarandstöðuþingmanni að huga að gjaldmiðli framtíðarinnar. Það er kannski ástæða til að benda þingmönnum sem eru að undirbúa sig undir umfjöllun um þetta mál að lesa góða samantekt um hrunið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar er fjallað töluvert um krónuna og áhrif hennar. Síðan hefur Seðlabankinn gefið út þykkt og mikið rit, það er á við múrstein, um gjaldmiðilsmálin þar sem niðurstaðan er, þó að það sé ekki stafað beint út, auðvitað sú að það sé ákaflega óhagfellt fyrir Ísland að vera áfram með íslensku krónuna.

En það eru stjórnmálaflokkar á Íslandi sem láta sig litlu varða hagsmuni almennings hvað þetta varðar og virðast ætla að halda í einhvers konar kredduhugsun um krónuna. Nú er að sjá hvort þeir sömu stjórnmálamenn eru þó það víðsýnir að þeir treysti sér til að samþykkja tillögu sem þessa. Það getur ekki skaðað að skrifa eina skýrslu og velta þessu fyrir sér.