145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:03]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég nefndi er auðvitað tómt mál að tala um krónuna í fjármagnshöftum undir þeim gjaldeyrishöftum sem nú ríkja, þess vegna legg ég mikla áherslu á það og árétta að ég tel brýnt að höftunum verði aflétt hið fyrsta. Ég veit ekki betur en það sé á stefnuskrá stjórnvalda á næstu vikum eða missirum. Það þarf enginn að deila um það að frjáls viðskipti með krónuna á milli landa er í dag tómt mál að tala um og ómögulegt að henda reiður á hvers virði hún er eða hvaða traust menn bera til krónunnar í dag.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þegar fjármagnshöftum verður aflétt þá sé það ekki endilega ávísun á að krónan hrynji og allt fari fjandans til, eins og menn hafa stundum verið að tala um og tala þannig krónuna niður fyrir fram. Það finnst mér rangt að gera. Það er enginn fótur fyrir slíkum svartsýnis- og bölmóðsspám.

Ég vil svo nefna annað líka í lokin. Þótt ég sé kannski ekki talsmaður skattgreiðenda og hafi ekki verið kjörin til þess að tala máli skattgreiðenda í Evrópu þá geri ég það hér, og er tilbúin að gera ýmislegt fyrir hag skattgreiðenda á Íslandi, upp að ákveðnu marki þó. Ég vil benda á að auðvitað er hægt að sýna fram á útreikninga, með því að ganga inn í myntbandalag með Evrópu, að hagur bæði ríkis og heimila vænkist hér til skamms tíma. En menn skyldu hafa það í huga að það er alltaf á kostnað skattgreiðenda í Evrópu, það verður alltaf þannig. Mönnum kann kannski ekkert að þykja neitt mikið um það hér á Íslandi, en ég vildi bara nefna að það er þannig. En það er auðvitað til langs (Forseti hringir.) tíma ekki á vísan að róa með það, hvorki með því að ganga í myntbandalag né með því að taka upp annan einhliða gjaldmiðil.