145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:08]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var svo sem engri spurningu beint til mín, en það er alveg rétt að mönnum kann að þykja það ekki blasa endilega við að auðvelt sé að taka upp marga gjaldmiðla. Ég velti því bara fyrir mér. Er það samt svo flókið? Hv. þm. Frosti Sigurjónsson nefnir hér að það sé sambærilegt við einhliða upptöku einhvers gjaldmiðils. Þarf það endilega að vera? Er það ekki örlítið öðruvísi aðgerð ef til dæmis væri miðað við að það væri ekki sjálft ríkið sem tæki upp gjaldmiðil fyrsta kastið heldur bara einstaklingarnir sjálfir?

Ég velti þessu oft fyrir mér, jafnvel fyrir hrun, fyrir árið 2008, og mér fannst það ákveðinn skortur á framtíðarsýn að hafa ekki rætt þessi peningamál einmitt í góðærinu, að menn hefðu ekki tekið tíma í að ræða þessi mál í góðærinu. Ég velti því bara fyrir mér. Þá voru einhver fyrirtæki að greiða út laun í erlendum gjaldmiðlum, ekki í stórum stíl, en það þekktist. Að einhverju leyti þekkist það enn í dag, í miklu minna mæli samt. Ég velti fyrir mér hvernig hefði farið ef fyrirtæki hefðu bara greitt út í erlendum gjaldmiðli, einhverjum sem hentaði þeim, og einstaklingar hefðu sjálfir smám saman tekið upp hina og þessa gjaldmiðla. Á endanum verður það auðvitað þannig, af því að einstaklingurinn er praktískur, hann er hagkvæmur, að menn lenda með einhvern einn kost í stöðunni eða tvo, einn gjaldmiðil eða tvo.

Ég er ekki sammála hv. þm. Frosta Sigurjónssyni um að hugmyndin sé (Forseti hringir.) galin eða mögulega erfið.