145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:12]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna svo sem bjartsýni hv. þm. Frosta Sigurjónssonar. Ekki ætla ég að verða til þess að slá hann kaldan niður ef hann hefur hugmyndir um það að íslenska krónan geti orðið eins og bandaríkjadalur, einhver tekjuöflun fyrir íslenska ríkið eða ákveðin vara fyrir íslenska ríkið. (Gripið fram í.) Nei, ég veit hann nefndi það ekki hér sérstaklega, en mér fannst samanburðurinn við bandaríkjadal kannski benda til þess. Þá er ég ekki að gera grín að þeirri hugmynd, auðvitað getur gjaldmiðill verið ákveðin vara og ákveðin verðmæti falist í honum umfram það að vera bara gjaldmiðill í viðskiptum einstaklinga eða tveggja aðila. Hann getur hreinlega verið það verðmætur og borið það mikið traust í sér sem slíkur að verðmætin nái út fyrir það. Það eru tugir ríkja, ég held yfir 30 ríki, sem hafa tekið einhliða upp annan gjaldmiðil, flest þeirra bandaríkjadal að ég hygg. Það er ekkert fráleitt að hugsa sér það að einn gjaldmiðill geti verið svo góður að hann nái þessu.

Ég vil að öðru leyti bara þakka hv. þm. Frosta Sigurjónssyni fyrir spjallið. Ég ítreka að ef þessi mál kæmu til skoðunar þá tel ég að það þyrfti að skoða það sérstaklega líka hvort ekki væri heppilegt að hér væri fjölmyntakerfi og hvað væri því til fyrirstöðu fyrir svona lítið land eins og Ísland að taka slíkt upp.

Ég vil ekki gera mikið úr myntsláttuhagnaði sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson vísaði væntanlega til þegar hann ræddi kosti þess að íslenska (Forseti hringir.) ríkið gæfi út eigin gjaldmiðil.