145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:25]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þykist vita að hv. þingmaður er áhugamaður um lýðræði, að það sé virt og mikilvægt að hafa það í heiðri. Það virðist vera eins og jaðarríki, t.d. Grikkland, hafi upplifað einhvers konar lýðræðisskerðingu með því að ganga í myntbandalagið. Það er spurning hvort að með því að fórna lýðræðinu — ríkin hafa jafnvel þurft að þola það að leiðtogum væri skipt út vegna þess að þeir hafa ekki þótt ásættanlegir. Ég veit ekki betur en að í miðri efnahagskreppunni hafi þótt sjálfsagt að Brussel hefði afskipti af því hverjir væru ásættanlegir leiðtogar fyrir jaðarríkin. (Gripið fram í.)

Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi, sem var mikilvæg, lét seðlabanki myntbandalagsins loka grískum bönkum í þrjár vikur og það var algjör spurning hvað yrði. Notuð er óttastýring og í rauninni fjárkúgun í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin á að tjá sig um mikilvæga spurningu. Þetta eru þvílík fantabrögð að maður getur ekki horft upp á þau án hluttekningar. Og að ætla að skáka Íslandi í þessa stöðu, ég get ekki eiginlega hugsað mér það. Ég treysti ekki þeim aðilum sem stýra evrópska myntbandalaginu. Ég treysti þeim bara ekki. Eigum við að treysta þeim til þess að gæta hagsmuna okkar? Eða munu þeir gera eins og þeir hafa gert í Grikklandi, gæta hagsmuna þeirra sem eiga alla stóru digru sjóðina, gæta hagsmuna bankanna? Björgun gríska bankakerfisins gekk út á það að bjarga frönskum og spænskum bönkum, er það ekki rétt? Er það einhver samsæriskenning? Var verið að bjarga grískri alþýðu? Ég varð ekki var við það. En það var grísk alþýða sem fékk að heyra þann söng að það væri svo farsælt að ganga í myntbandalagið, það þýddi meiri atvinnu, meiri stöðugleika, lægri vexti. En hvernig er ástandið núna? Getum við ekki lent í sömu stöðu ef við gerum mistök í efnahagsmálum eða verðum fyrir einhverjum utanaðkomandi áföllum?