145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir málefnalegt andsvar.

Það er alveg rétt varðandi Grikkland, hugsunin var ekki sú að ræða hér grísk stjórnmál eða grísk efnahagsmál, en staðreyndin er náttúrlega sú að þegar við ræðum gjaldmiðilsmálin, kosti og galla ákveðinna leiða sem farnar eru í því efni, þá dugar ekki að halda sig við teoríuna eina, við viljum horfa líka á praxís, við viljum horfa á veruleikann og þá leitum við á þær slóðir sem eru kannski öðrum löndum fremur eða öðrum svæðum fremur í brennidepli. Þar kemur Grikkland til sögunnar. Ég tek alveg undir það með hv. þingmanni að ef ráðast á í samanburð þá þarf náttúrlega að gera það á mjög heildstæðan hátt í stað þess að taka einhverja tiltekna þætti út úr.

Aftur að teoríu og praxís. Það er alveg rétt að auðvitað eigum við að hanna og skipuleggja efnahagslíf okkar þannig að hér sé sem mestur stöðugleiki og sem mestur jöfnuður. Það gerist án þess að við verðum undirseld miklum sveiflum í gjaldmiðlinum. Það er óskastaðan. Ég er hins vegar að horfa á veruleikann þarna aftur. Í kjölfar einhverrar mestu dýfu sem við höfum tekið sem samfélag og efnahagseining þegar tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga og fyrirtækja snarfalla þá stöndum við frammi fyrir veruleika sem var þessi. Við þessar aðstæður tökum við öll kjaraskerðinguna og reynum að grípa til gagnráðstafana, eða látum við tiltekinn hluta þjóðarinnar gera það með atvinnuleysi? Það er hlutskipti margra sem hafa lent í svipuðum aðstæðum.

Síðan er það upphæð Tobin-skattsins. Nei, ég (Forseti hringir.) er ekki að tala um 30% skatt og horfa til slitabúanna hér, (Forseti hringir.) heldur erum við að tala um einhverja agnarsmáa prósentu sem mundi hins vegar skila sér í (Forseti hringir.) gríðarlegum upphæðum ef sú prósenta væri lögð á á heimsvísu.