145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:37]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum eiginlega að lenda samsíða, ég og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, að velta vöngum yfir þessu. Hann vísaði í G-20 ríkin sem hafa reyndar látið vinna skýrslu fyrir sig á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um ágæti skatts að þessu leyti og Evrópusambandið, framkvæmdastjórnin þar, hefur tekið málið upp. Þar hafa menn verið að tala um 0,01% skatt á afleiðuviðskipti, en 0,1% skatt á hluta- og skuldabréf. Við erum að tala um skattlagningu af þessu tagi.

Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður segir um skattaskjólin. Þar er ég kominn þar sem ég hóf mál mitt í þessari seinni ræðu minni um vangaveltur sem hér komu fram fyrr í dag um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð í heimi þar sem allt væri opið og allt væri frjálst. Ein slík miðstöð er í London. City of London er mjög sjálfstæð eining innan Bretlands. Það er athyglisvert að á meðal þeirra sem harðast leggjast gegn Tobin-skattinum innan Evrópusambandsins eru Bretar. Það er vegna skattaskjólsins sem þeir veita spekúlöntum í City of London.

Ég tek því undir með hv. þingmanni. Við eigum að beita okkur fyrir því þar sem við höfum ráð til og möguleika á alþjóðavísu að taka undir með þeim sem vilja stemma stigu við skattaskjólunum. Ætla ég að láta það verða mín lokaorð.