145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þessi umræða hér í dag er að mörgu leyti mjög þörf og hún hefur verið ágæt. Hún snýst um kjör fólksins í landinu vegna þess að það er afar dýrt að halda uppi krónunni, hún er dýr fyrir heimilin, hún er dýr fyrir fyrirtækin.

Í upphafi greinargerðar með þeirri þingsályktunartillögu sem við ræðum hér segir, með leyfi forseta:

„Efnahagslegur óstöðugleiki, óhóflegar verðlagshækkanir og hátt vaxtastig hafa um langa hríð einkennt íslenskt efnahagslíf með tilheyrandi áhrifum á lífskjör almennings og umgjörð atvinnulífsins.“

Í greinargerðinni er meðal annars vitnað í sérrit Seðlabanka Íslands Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum sem út kom í september 2012. Rætt er um í þeirri greinargerð að taka þurfi pólitíska afstöðu til þeirra kosta sem þar eru metnir álitlegir.

Ég vil, herra forseti, nýta þann tíma sem ég hef hér til að fara aðeins yfir það hvaða atriði það eru sem Seðlabankinn, í þessu sérriti sem var unnið á árunum 2010–2012, leggur til grundvallar þegar niðurstaðan er fengin. En niðurstaðan, eftir rannsóknir þeirra og skoðanir, var einmitt sú að ef Ísland ætlaði að taka upp annan gjaldmiðil væri hagstæðast að það yrði evra.

Í 2. kafla þessa rits er talað um efnahagsþróun á evrusvæðinu og farið yfir hana nákvæmlega. Síðan er í 3. kafla talað um reynslu Íslendinga af sjálfstæðri peningastefnu og sveigjanlegu gengi. Í kaflanum er þetta rakið og það er dregið fram að reynsla annarra ríkja af peningastefnu með formlegu verðbólgumarkmiði hafi almennt verið góð. Það á sérstaklega við um ríki sem áður höfðu átt við að etja viðvarandi vanda, óhóflega verðbólgu og mikinn óstöðugleika.

Í kaflanum segir, með leyfi forseta:

„Í þessu samhengi er slök reynsla Íslendinga sláandi. Verðbólga hefur að jafnaði verið mikil og lengstum yfir markmiði. Gengis- og verðbólgusveiflur hafa verið miklar og ofþenslan og ójafnvægið í þjóðarbúskapnum mikið fram að snörpum efnahagssamdrætti í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Enn sem komið er virðist kreppan hafa verið verri hér en í öðrum verðbólgumarkmiðsríkjum, þótt of snemmt sé að dæma endanlega þar um þar sem öll kurl eru ekki komin til grafar.“ — Þetta er skrifað 2012.

Í kaflanum eru helstu ástæður þessa slælega árangurs raktar. Eins og rakið er í kaflanum er uppbygging innlends þjóðarbúskapar nokkuð ólík því sem þekkist meðal flestra annarra verðbólgumarkmiðsríkja: hlutdeild matvæla- og hrávöruútflutnings er mun hærri hér á landi en almennt þekkist og því er líklegt að innlendur þjóðarbúskapur sé berskjaldaðri fyrir sveiflum í alþjóðlegu verði matvæla og hrávöru. Smæð hagkerfisins eykur þennan vanda enn frekar en fábreytni innlendrar framleiðslu og útflutnings gerir það að verkum að sérhæfing verður mikil og þjóðarbúskapurinn óstöðugri en í öðrum stærri hagkerfum. Stjórn peningamála verður því líklega ávallt erfiðari hér á landi en í stærri hagkerfum þar sem atvinnuuppbygging er í eðli sínu stöðugri. Þessu til viðbótar virðast gengissveiflur hafa töluverð áhrif á innlenda verðbólguþróun og virðast áhrifin ekki hafa minnkað frá upptöku verðbólgumarkmiðsins, ólíkt því sem gerst hefur í öðrum verðbólgumarkmiðsríkjum.

Um þetta er ítarlega fjallað. Ég hef ekki tíma til þess að fara nánar yfir þennan kafla sem er afar áhugaverður. Talað er um alþjóðlega gerð og alþjóðlega samþættingu íslenska þjóðarbúskaparins. Talað er um kenninguna um hagkvæm myntsvæði í 5. kafla. Þar kemur fram að ekki er hægt að komast að afdráttarlausri niðurstöðu um hvort hagkvæmara sé fyrir ríki að halda eigin gjaldmiðli eða gerast aðili að stærra myntsvæði. Stundum geta komið svo alvarleg efnahagsáföll að auðveldara verður að eiga við þau með sveigjanlegu gengi. Á öðrum tímum getur sveigjanlegt gengi hins vegar beinlínis aukið á efnahagslegan óstöðugleika, auk þess sem eigin gjaldmiðill getur virkað sem viðskiptahindrun og þannig dregið úr efnahagslegri velsæld. Það er því ekki til það gengisfyrirkomulag sem hentar öllum ríkjum á öllum tímum.

Í 6. kafla er talað um rekstrarhagfræðilegan ávinning af aðild að myntbandalagi. Þar er meðal annars fjallað um sparnað sem gæti fallið til ríkisins hér á landi ef við tökum upp annan gjaldmiðil.

Í 7. kafla er talað um hagsveiflur, áhættuþóknun vaxta og fyrirkomulag gengismála. Í 8. kafla er fjallað um myntbandalög og utanríkisviðskipti. Þar er einmitt talað um og farið yfir það hvernig á því stendur að það er einmitt þarna sem Íslendingar geta grætt á því að taka upp annan gjaldmiðil.

Rannsóknir sem fjallað er um í kaflanum eru byggðar á tölfræðilegu mati á gögnum frá fjölmörgum löndum og endurspegla hugsanleg áhrif fyrir meðallandið. Ekki er útilokað að áhrifin gætu jafnvel orðið meiri hér á landi vegna smæðar íslensks þjóðarbúskapar. Smæðin leiðir til þess að hér á landi er einungis hægt að framleiða tiltölulega fáar vörutegundir. Aðild að evrusvæðinu ætti því að auðvelda innlendum fyrirtækjum, sem nú framleiða að mestu fyrir innlendan markað, að hefja útflutning og sölu á stærra markaðssvæði. Aðildin ætti að auðvelda þeim að nýta stærðarhagkvæmni í framleiðslu og sölu og leiða þannig til aukinnar hagræðingar og lægri kostnaðar í innlendri atvinnustarfsemi. Þannig að kostir eru dregnir fram.

Eignaverðsbólur og fyrirkomulag gengismála, um það er fjallað í 11. kafla. Mér finnst mikilvægt fyrir okkur á þessum tíma að lesa þann kafla mjög vel. Þar er lagt mat á það hvort fyrirkomulag gengismála skiptir máli þegar eignaverðsbólur myndast og springa. Samanburður á húsnæðis- og hlutabréfabólum meðal ríkja innan og utan evrusvæðisins bendir til þess að eignaverðsbólur séu heldur algengari utan evrusvæðisins en að hlutabréfabólur vari jafnan lengur innan þess. Svipaðar niðurstöður fást þegar efnahagsleg áhrif þess að eignaverðsbólur springa eru borin saman. Líkt og í öðrum rannsóknum virðast sprungnar húsnæðisbólur kostnaðarsamari þar sem samdráttur hagvaxtar er meiri í kjölfar þess að þær springa en þegar hlutabréfabólur springa. Húsnæðisbólur eru að jafnaði meira drifnar af kröftugum útlánavexti og ná til stærri hluta almennings og því eru neikvæðu áhrifin yfirleitt víðtækari vegna áhrifa á efnahagsreikninga heimila, fyrirtækja og banka.

Virðulegur forseti. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og ég kemst ekki yfir það sem mig langar til að segja. En ég vona svo sannarlega að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga því að þetta er afar mikilvægt. Það er afar mikilvægt að við tökum pólitíska ákvörðun í þessu máli sem við endurskoðum þegar fram líða stundir, en að við tökum afstöðu til þessara mála. Við erum alltaf að tala um þetta. Seðlabankinn hefur unnið góða greiningu upp á 600 blaðsíður sem ég er ekki búin að lesa allar, en er ákaflega víðtækt rit sem hentar mjög vel til að taka ákvörðun í málinu. Við þekkjum það bara almenningur, við höfum sveiflast með krónunni. Hún hefur risið hátt og fallið hefur líka verið hátt og efnahagur heimila og ríkissjóðs með, þannig að það er ekki undarlegt þó að menn velti því fyrir sér hvort krónan, þessi minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heimi, sé kjarabót fyrir okkur, eða hvort hún valdi okkur búsifjum og sé til þess að halda launum hér niðri og atvinnulífinu fábreyttara.