145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Til að byrja með þá var þetta ekki útdráttur úr allri skýrslunni, þannig að það sé nú sagt, við þyrftum fleiri daga til að fara yfir hana.

Mér finnst þetta málefni skipta mjög miklu. Af hverju ekki að fela ríkisstjórninni að móta stefnu til framtíðar í gjaldmiðilsmálum? Þegar ríkisstjórnin væri komin með það verkefni í hendur þá mundi hún nýta sér þau rit sem eru til staðar og kalla eftir þeim sjónarmiðum sem þykir vanta upp á.

En er hv. þingmaður að segja það hér að kreppan í Evrópu hafi verið gjaldmiðilskreppa, að það sé aðalmálið að evruríkin hafi glímt við gjaldmiðilskreppu?